fbpx

Að bæta við nýjum vana

Við viljum öll bæta okkur og gera betur. Það getur verið hvað sem er, hreyfa okkur meira, borða hollara, lesa meira, nota tannþráð daglega, skrifa bók,… en það krefst oft þess að við þurfum að bæta við nýjum vana.

En það er hægara sagt en gert að breytast og gera eitthvað sem við erum ekki vön að gera. Það er oft auðvelt að byrja af fullum krafti, en svo allt í einu er maður dottinn í sama farið.

Bæta við nýjum vana

Sú leið sem virkar allra best til að breyta vana, er leið sem fáir nenna að fara því hún tekur langan tíma, en er samt vænlegust til árangurs. Það er að byrja fáránlega smátt. Svo smátt að það er næstum hallærislegt.

T.d. ef þú vilt venja þig á að borða meira grænmeti, fáðu þér þá eina gúrkusneið á dag. Ef þú vilt venja þig á að fara út að hlaupa, vendu þig á að labba út á horn daglega. Ef þú vilt venja þig á að nota tannþráð, notaðu bara tannþráð á eina tönn á dag. Síðan má ekki bæta við vanann, fyrr en þetta er virkilega orðið að vana.

Mig er búið að langa að skrifa bók í mörg ár. Það er ekki enn komin nein bók. Ég fór á námskeið með Guðjóni Bergmann árið 2008 og á því námskeiði skrifaði ég líklega það mesta sem ég hef skrifað (fyrir utan Masters ritgerðina mína). Áhuginn á að skrifa bók hefur komið og farið og ég hef tekið alls konar námskeið og keypt fullt af bókum sem kenna mér að skrifa bók. Það var ekki fyrr en nýlega að ég var næstum búin að kaupa enn eitt námskeiðið, að ég áttaði mig á því að ég þyrfti ekki að kaupa annað námskeið eða aðra bók – það var ekki ástæðan að ég væri ekki búin að skrifa bók. Niðurstaðan er sú að ég veit hvernig ég ætla að skrifa þessa bók.

Þ.e.a.s. ég veit nákvæmlega ferlið. Hvernig ég ætla að byrja og hvernig ég ætla að vinna mig markvisst í gegnum bókina þar til ég er komin með bók. Ég áttaði mig á því að ég þarf ekki fleiri námskeið eða bækur til að læra að skrifa bók.

Ég hélt að trikkið væri bara að taka frá tíma og ákveða að setjast niður og skrifa. Það gekk ekki. Ástæðan var sú að ég ætlaði að skrifa 3 tíma á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Það er svo auðvelt að gefa öðrum ráð, en ég áttaði mig ekki fyrr en nýlega á því að ég þyrfti að fara allt aðra leið. Það að skrifa bók, fyrir mig, krefst þess að ég setjist niður og skrifi. En ef ég hef ekki verið að gera það og mér hefur ekki tekist það í 14 ár – þá þarf ég að nýta mér það sem ég kenni öðrum og notað bestu aðferðina til að breyta vana.

Þessi aðferð er ítarlega skilgreind og útfærð í bókinni Tiny habits eftir BJ Fogg. Aðferðin byggist á því að byrja fáránlega smátt – og þá meina ég fáránlega smátt. Það að ætla að skrifa 12 tíma á viku í þremur lotum er langt frá því að vera smátt – enda gekk það plan ekki upp hjá mér.

Fyrir sjö föstudögum síðan, þá sá ég að ein kunningjakona mín á Facebook auglýsti samskrif á netinu í gegnum Zoom. Þegar ég sá þetta þá hugsaði ég strax um bókina mína, en jafnframt hvað það væri nú lítið að hafa þetta bara einn klukkutíma, einu sinni í viku. Þetta var svo lítið að ég fór strax að hugsa, að ég myndi taka þátt ef þetta væru þrír tímar á viku – ekki bara einn.

En sem betur fer áttaði ég mig á því að þetta væri líklega akkúrat það sem ég þyrfti. Að skrifa bók með því að setjast niður einn klukkutíma á viku. Hvað tæki það mig þá langan tíma að skrifa heila bók? Líklega tekur það mjög langan tíma – en vonandi styttra en 14 ár!

Núna er ég búin að setjast niður sjö föstudaga í röð og skrifa í klukkutíma. Það hefur komið fyrir að ég gat ekki verið á Zoom tímanum, en þá skrifaði ég sama dag, en á öðrum tíma og ein.

Þetta er búið að ganga mjög vel. Ég er mjög ánægð með mig og ég finn að þetta er orðinn vani, að setjast niður einn tíma í viku og skrifa. En ég finn líka að ég er ekki alveg tilbúin að auka við tímann enn sem komið er. En þegar ég finn að ég til tilbúinn að auka við tímann, þá mun ég bara auka við 30 mínútur eða í mesta lagi klukkutíma.

Svo þú hafir eitthvað gagn af því að lesa þennan póst, þá langar mig að segja hvernig þú getur nýtt þetta til að breyta vana hjá þínum unglingi. Þar sem flestir nemendur eru búnir í prófum, þá nýtist þessi aðferð kannski ekki í heimalærdóm eða próflestur, en þú sem foreldri getur æft þig að nota þessa aðferð á eitthvað annað.

Það sem flestir unglingar gætu bætt sig í er að taka til í herberginu eða ganga betur frá eftir sig t.d. eftir að hafa fengið sér að borða. Ef unglingurinn þinn gengur aldrei frá eftir sig í eldhúsinu og eldhúsið er eins og sprenging þegar þú kemur heim. Þá er líklega ekki árangursríkt að segja unglingnum að núna verði hann að ganga frá ÖLLU eftir sig. Auðvitað væri það sjálfsagt og eðlilegt, en ef hann hefur ekki gert það hingað til, þá gæti virkað að byrja smátt. T.d. þegar hann fær sér að borða, að biðja hann alltaf að setja notað glas í uppþvottavélina eða í vaskinn, ef það er hreint í vélinni. Stundum er það bara nóg og áður en þú veist af, þá er hann farinn að ganga betur frá, en ef ekki og það gengur kannski vel að ganga frá glasinu, þá getur þú bætt við að hann þurfi að ganga frá glasinu og einhverju einu öðru. Sem sagt byrja mjög smátt og bæta við þegar þú finnur að þetta litla sem hann er að gera, er komið í vana.

Er einhver vani sem þú vilt koma inn hjá þínum unglingi? Heldur þú að þú getir notað þessa aðferð til að aðstoða hann með það?
Ef þú hefur einhverjar spurningar – hikaðu ekki við að senda mér póst með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: