Mér finnst mjög áhugavert að skoða hvers vegna nemendur þora ekki að spyrja spurninga í tímum. Því eins og ég hef áður sagt, þá er stærðfræði rannsóknarvinna og því mikilvægt að nemendur þori að spyrja spurninga.
Það er einkum tvennt sem hefur áhrif á það hvers vegna nemendur spyrja ekki spurninga. Eitt er persónuleiki nemenda og svo hefur menningin í kennslustofunni einnig mikil áhrif.
Persónuleiki nemenda
Sumir nemendur þora ekki að spyrja upphátt. Það má líkja því við hræðsluna að halda ræðu sem margir fullorðnir tengja við. Það getur verið almenn hræðsla við að tala upphátt, en sumir eru hræddir um að spurningin sem þeir spyrja sé ekki nógu góð, það verði gert grín af þeim fyrir að spyrja, að spurningin gefi vísbendingar um að þeir hafi ekki lært heima eða bendi til þess að þeir séu ekki nógu klárir.
Menningin í kennslustofunni
En menningin í kennslustofunni hefur líka mikil áhrif á það hvort að nemendur þori (eða nenni yfir höfuð að standa í því) að spyrja. Hvernig er brugðist við þegar nemendur spyrja spurninga?
– Segir kennarinn “frábær spurning, við skulum aðeins skoða þetta saman upp á töflu svo allir sem eru að velta þessu fyrir sér geti fylgst með” eða
– Dæsir kennarinn og segir “ég var að fara yfir þetta áðan”, eða
– Er kennarinn upptekinn í tölvunni og gefur ekki færi á sér til að svara spurningum?
Hvað geta kennarar gert til að hvetja nemendur til að spyrja spurninga?
Þar sem margir foreldrar eru kennarar, þá ætla ég að tala um hvað kennarar geta gert.
Þegar ég var að kenna í kennslustofu, þá gekk ég á milli meðan nemendur voru að vinna og reyndi að sjá hvaða nemendur voru greinilega í vandræðum og þorðu ekki að spyrja. Sumir voru ansi góðir í að þykjast vera að vinna, jafnvel verja góðum tíma í að skrifa upp öll dæmin á blaðsíðunni án þess að reikna – en ég var líka rosalega góð í að taka eftir þeim nemendum og fara til þeirra og spjalla um dæmin.
Kennarar geta líka passað sig á að fagna öllum spurningum og sýna og sanna að það er í lagi að spyrja spurninga. Ég sagði t.d. alltaf “frábær spurning!” ef einhver spurði. Það er mikið hrós fyrir nemendur að heyra að þeir séu að spyrja góðra spurninga.
Kennarar geta líka kennt nemendum að spyrja góðra stærðfræðispurninga…
Hvað geta foreldrar gert, til að hvetja sinn ungling til að spyrja spurninga?
Ég trú því að allir geti lært að spyrja góðra stærðfræðispurninga þrátt fyrir að menningin í kennslustofunni hafi ekki tekið sérstaklega vel á móti spurningum.
Ég trúi því líka að nemendur sem þora almennt ekki að spyrja, geti lært að nýta sér þessar góðu stærðfræðispurningu.
Ertu að springa úr spenningi að heyra hvað er frábær stærðfræðispurning?
Áður en ég ljóstra upp þessari frábæru stærðfræðispurningu, þá langar mig að tala um algenga spurningu sem er ekki alveg nógu góð – hvorki fyrir nemandann eða kennarann. En það er spurningin “hvernig reikna ég þetta dæmi?”.
Hvað er svona slæmt við þessa spurningu?
Ef ég skil ekki eitthvað dæmi, og spyr kennarann minn “hvernig reikna ég þetta dæmi”, þá mun kennarinn sýna mér hvernig hann myndi leysa þetta dæmi. Það eru til mjög margar leiðir til að leysa hvert dæmi. Ef kennarinn sýnir mér hvernig hann myndi leysa dæmið, þá er mjög líklegt að ég hugsi, “ég hefði aldrei getað leyst þetta dæmi, eins gott að ég spurði” og það eru miklar líkur á að sjálfstraustið mitt minnki, eg verði óörugg og ég biðji oftar um aðstoð.
Mjög góð stærðfræðispurning, er að spyrja “kennari, getur þú séð hvað ÉG er að gera rangt” og sýna svo kennaranum hvað þú ert búinn að gera.
Með þessari spurningu ertu ekki að spyrja kennarann hvernig hann myndi leysa dæmið, þú ert að rannsaka og skilur ekki hvers vegna þú færð ekki rétt svar eða hvað þú átt að gera næst.
Þegar nemendur segja við mig “hvernig reikna ég þetta dæmi”, þá bið ég þá um að byrja að leysa dæmið og fylgist með hvar þeir eru að stoppa. Yfirleitt eru bara smá villur (t.d. margfaldað vitlaust saman) sem valda því að það kemur ekki rétt svar. Þegar ég fer yfir útreikningana og get sagt “þetta er allt rétt hugsun og virkilega vel unnið, en ég sé að á einum stað þá margfaldaðir þú vitlaust saman….”. Þetta svar mitt er svar sem nýtist nemandanum, hann veit að hann var að hugsa þetta rétt, hann þarf bara að passa að vera ekki of fljótfær í margföldun. Það eru meiri líkur á að sjálfstraustið aukist hjá þessum nemanda.
Svona spurning (“kennari, getur þú séð hvað ég er að gera rangt”), er líka skilaboð til kennarans um að þú sért að taka ábyrgð á að reyna að finna út úr þessu, en þér vantar bara smá aðstoð.
Það að læra að spyrja góðra stærðfræðispurninga er eitthvað sem allir nemendur ættu að læra að tileinka sér og ég kenni það á öllum mínum stærðfræðinámskeiðum – ásamt alls konar öðrum fróðleik sem hefur áhrif á viðhorf nemenda til stærðfræði.
—
Átt þú kannski ungling sem þarf að ná betri tökum á stærðfræði og breyta viðhorfi sínu gagnvart stærðfræði – ásamt því að læra heilan helling í stærðfræði og byggja upp góðan grunn í stærðfræði?
Ef svo er, þá var ég að opna fyrir skráningu á sumarnámskeiðin mín – fyrir nemendur í 8. – 10. bekk!
Námskeiðið fyrir nemendur í 8. bekk er fyrir alla nemendur á leið í 8. bekk, því það er svolítið dularfullt sem á sér stað í 8. bekk… Smelltu hér til að skoða námskeið fyrir nemendur í 8. bekk
Námskeiðin mín fyrir nemendur í 9. og 10. bekk er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur sem standa höllum fæti í stærðfræði (eru að fá undir B) og vilja byrja nýtt skólaár með góðan grunn í stærðfræði og algjörlega nýtt viðhorf gagnvart stærðfræði.
Smelltu hér til að skoða námskeið fyrir nemendur í 9. bekk og
smelltu hér til að skoða námskeið fyrir nemendur í 10. bekk.
Ef þú hefur einhverjar spurningar – hikaðu ekki við að senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is