Í mars 2013 fékk ég þá hugmynd að búa til 5 vikna námskeið í stærðfræði fyrir nemendur í 10. bekk – nánar tiltekið undirbúa nemendur í 10. bekk fyrir samræmt próf í stærðfræði sem átti að vera um haustið. Meðan ég var að taka upp kennslumyndböndin þá hugsaði ég oft:
Er einhver unglingur sem er tilbúinn að verja hluta af sumarfríinu í að reikna?
En áfram hélt ég samt að taka upp kennslumyndböndin, því ég vissi nákvæmlega hvernig nemendum leið þegar þeir voru að undirbúa sig fyrir samræmdu prófin í 10. bekk og mig langaði til þess að gera allt sem ég gæti til að búa til námskeið sem gæti undirbúið þá sem allra best undir þessi próf.

Þegar ég var að kenna 10. bekkingum að undirbúa sig undir þessi próf í kennslustofu, þá náði ég aðeins að fara í örfá dæmi með nemendum. Nemendur höfðu fengið gömul próf til að reikna heima, en ég náði ekki að fara yfir öll dæmin í þeim prófum, heldur þurfti ég að velja “óskadæmi” og náði einungis að reikna örfá dæmi úr nokkrum prófum. Þetta var árið 2008. Þá var enginn nemandi með síma og það voru engin námskeið á netinu.
Árið 2013 var hægt að taka upp myndbönd þar sem ég reiknaði hvert einasta dæmi úr samræmdu prófum síðustu 7 ára og allt í einu gátu nemendur fengið alla þá aðstoð sem þeir þurftu til að undirbúa sig undir þessi próf. Þeir sem voru mjög sterkir í stærðfræði gátu brunað áfram og stoppað og fengið aðstoð með örfáu dæmin sem þeir lentu í erfiðleikum með, en þeir sem voru með slakari grunn gátu farið hægar yfir og fengið aðstoð með hvert einasta dæmi. Þetta var algjör bylting í kennslu, þar sem virkilega var hægt að veita eitthvað sem flokkast sem einstaklingsmiðað nám, þar sem bæði slakir nemendur og þeir allra sterkustu voru að fá stuðning við hæfi.
En það hefur heilmikið breyst frá 2013. Það hafa komið fram nýlegar rannsóknir varðandi stærðfræðinám og virkni heilans sem er hægt og þarf að nýta í námi. Einnig eru mikið af frábærum tólum og tækjum sem gera það að verkum að hægt er að hafa nám einstaklingsmiðað.
Það er staðreynd að kennslubækurnar í kennslustofu virka bara fyrir meðal nemandann. En fyrir þá sem standa höllum fæti í stærðfræði, þá eru dæmin ekki nógu mörg til að nemendur nái góðum tökum á efninu og fyrir þá allra sterkustu þá er það mikil kvöl og pína (og tímasóun) að þurfa að reikna hvert einasta dæmi í kennslubókinn…bara af því að það er í kennslubókinni.
Fyrir mér er einstaklingsmiðað nám, að vera með verkefni við hæfi fyrir nemendur og gefa nemendum þann tíma sem þeir þurfa til að ná góðum tökum á efninu. Fyrir suma dugar að reikna 5 dæmi og þeir kunna efnið og þurfa ekki meir. Fyrir aðra þá þurfa þeir að reikna miklu fleiri dæmi en eru í kennslubókinni og þurfa jafnvel aðra nálgun á dæmin því efnið eins og kennt er í bókinn hentar þeim ekki.
Námskeiðin mín fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk eru einstaklingsmiðuð í þeim skilningi að nemendur horfa á kennslumyndbönd frá mér eins oft og þeir þurfa (fyrir suma dugar að horfa einu sinni, en aðrir þurfa að horfa nokkrum sinnum og jafnvel punkta hjá sér og stoppa myndbandið). Þegar nemendur telja sig vera komna með mjög góð tök og góðan skilning á efninu sem ég legg fyrir, þá þurfa þeir að fara inn á gagnvirkan æfingavef og æfa sig sjálfir í því sem ég var að kenna í myndbandinu.
Ef nemendum gengur mjög vel á æfingavefnum, þá verða dæmin erfiðari, en jafnframt er algjör óþarfi að reikna nema 10 eins dæmi í röð rétt. Fyrir marga nemendur þá eru dæmin krefjandi og þeir þurfa að reikna 20-40 dæmi (áður en þeir fara að fá 10 dæmi í röð rétt), reyna að læra af villunum og jafnvel fara til baka í kennslumyndbandið.
Fyrir marga nemendur er þetta ný hugsun. Mörgum nemendum finnst eins og allir eigi að reikna jafn mörg dæmi. Þeir eru vanir að sigla áfram í efninu í skólanum og kunna það bara svona nokkurn vegin og halda áfram með bekknum. En á námskeiðunum hjá mér, þá þurfa nemendur að læra og sýna þrautseigju í ákveðnu efni, þar til þeir hafa náð góðum tökum á efninu og halda þá áfram, því í stærðfræði er alltaf verið að byggja ofan á þekkingu sem er til fyrir.
En stærðfræði gengur ekki bara út á að reikna og skilja hvað maður er að gera. Stór hluti af því að ná árangri í stærðfræði er að tileinka sér stærðfræði viðhorf (e. mathematical mindset). Við vitum í dag að allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði, við vitum að við lærum mest á að gera mistök og stærðfræði gengur út á að rannsaka og sýna þrautseigju – ekki vera snöggur og fá alltaf rétt svör.
En snúum okkur aftur að sumrinu. Sumarið 2013 þá fékk ég það staðfest að unglingar eru alveg tilbúnir að verja sumrinu í að reikna! Síðan þá, hef ég alltaf verið með námskeið á sumrin til þess að undirbúa nemendur fyrir haustið. Það er mjög gott að byrja nýtt skólaár með nýtt og jákvætt viðhorf gagnvart stærðfræði og námi almennt.
Ef þú átt ungling sem þarf að taka sig á í stærðfræði og hann langar að bæta sig í stærðfræði- þá er akkúrat tækifærið núna að skrá hann á námskeið hjá mér sem byrjar mánudaginn 15. ágúst.
Ef þú hefur einhverjar spurningar – hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is
PS. Hérna eru nánari upplýsingar um námskeiðin mín sem byrja 15. ágúst:
10. bekkur, fyrir nemendur sem eru að fá undir B*
9. bekkur, fyrir nemendur sem eru að fá undir B*
8 bekkur, fyrir alla nemendur á leið í 8. bekk
7. bekkur, fyrir alla nemendur á leið í 7. bekk
Ef skoðað er námsmatið í Mentor, þá jafngildir B græna litnum.
Ef nánast allt er grænt í stærðfræði, þá er unglingurinn þinn í góðum málum.
PSS. Ummæli af námskeiðunum
“Í fyrsta sinn heyrði ég drenginn minn segja að stærðfræðitími í skólanum hafi verið skemmtilegur. Aukið sjálfstraust, áhugi, þekking og færni er það sem námskeiðið fyrir nemendur í 10. bekk færði honum. Takk innilega fyrir okkur.“
– Foreldri nemanda á “Námskeið fyrir 10. bekk”
“Ótrúlega hvetjandi og skemmtilegt námskeið. Ég hef aldrei séð drenginn minn reikna af jafn miklum áhuga. Það sem kom mér mest á óvart var að sjálfstraust hans jókst – ekki bara í stærðfræði heldur breyttist viðhorf hans til náms almennt og hann fór að sýna meira sjálfstraust og áhuga í öðrum fögum! Þetta var nákvæmlega það námskeið sem hann þurfti.“
– Foreldri nemanda á “Námskeið fyrir 9. bekk”
“Dásamlegt námskeið sem hefur verulega aukið áhugann á stærðfræði hjá mínum dreng. Það er svo ómetanlegt að sjá úthaldið og áhugann sem hefur aukist eftir námskeiðið.“
– Foreldri nemanda á “Námskeið fyrir 8. bekk”