fbpx

Ábyrgð á námi

Nemendur sem ætla að ná mjög góðum tökum á stærðfræði, verða að taka fulla ábyrgð á náminu. En það felst einna helst í því að þeir kenni ekki öðrum um ef illa gengur. Það er t.d. mjög auðvelt að kenna stærðfræðibókinni, kennaranum eða Covid um hvernig gengur. Um leið og nemendur falla í þá gryfju, þá eru þeir búnir að kasta frá sér tækifærinu að ná góðum árangri í stærðfræði.

Ábyrgð á námi

Einkatímar/aukatímar í stærðfræði

Ég er almennt ekki hrifin af því að foreldrar séu að “senda” unglingana sína í aukatíma í stærðfræði. Ástæðan fyrir því er sú að yfirleitt eru nemendur sem mæta í þessa aukatíma ekki að taka fulla ábyrgð.

Af gefinni reynslu get ég sagt að um 90% nemenda sem eru sendir í aukatíma í stærðfræði, mæta bara, setjast niður og bíða eftir að þeim sé kennt eitthvað! Í þeim tilfellum þurfa kennarar að finna út hvar þeir eru staddir, því yfirleitt mæta þeir með stærðfræðibækurnar í þessa tíma. Þegar búið er að finna út hvar þeir eru staddir, þá þarf kennarinn að komast að því hvað það er sem nemandinn skilur ekki og þarf aðstoð með.

En um 10% nemenda taka fulla ábyrgð þegar þeir mæta í aukatíma. Það lýsir sér þannig að þeir mæta í aukatíma með miða sem á stendur númer á þeim dæmum sem þeir náðu ekki að leysa og vantar aðstoð með eða vita nákvæmlega hvaða efni þeir vilja fá betri útskýringu á. Í þessum tilfellum myndi ég segja að aukatímar í stærðfræði borgi sig margfalt.

Námskeið á netinu

Námskeiðin mín á netinu eru þess eðlis að nemendur þurfa ekki að vita hvað þeir kunna og kunna ekki, því þeir fara í gegnum ákveðið námsefni sem ég legg fyrir. Það mætti því segja að það henti öllum nemendum – bæði þeim sem taka fulla ábyrgð og þeim sem vita ekki hvað þeim vantar aðstoð með. En svo er ekki.

Nám í gegnum netið er nefnilega þannig að ef nemendur hafa engan áhuga á að taka námskeiðið, þá mun það ekki nýtast þeim neitt. Þess vegna bið ég foreldra eða forráðamenn alltaf um að spyrja unglinginn sinn fyrst hvort hann langi að taka námskeið hjá mér.

Nám heimafyrir (og í kennslustofu)

Við sem foreldrar (og kennarar) getum hjálpað nemendum að taka meiri ábyrgð. En yfirleitt tökum við ábyrgð af þeim með því að vera einum of hjálpsöm. T.d. finna út hvað þau þurfa að læra, fara yfir dæmi, kenna þeim áður en þau biðja um aðstoð o.fl.

Þegar ég var að kenna í kennslustofu og nemandi spurði “er þetta rétt hjá mér” þá bað ég hann að athuga sjálfur svörin. En ég stóð hjá honum á meðan svo að hann upplifði ekki að mér væri sama, en markmiðið mitt var að hann yrði meira sjálfbjarga. Ef ég hefði skoðað dæmið og farið yfir það, þá hefði hann haldið áfram að biðja um aðstoð og jafnvel verið óöruggur að reikna einn heima.

En ég veit um nemendur sem eru með mikinn athyglisbrest og fá góða aðstoð heima fyrir til að halda utan um námið, en ég veit að þeir kunna að meta aðstoðina og eru ekki að varpa ábyrgðinni á foreldra. Þetta eru þó algjör undantekningar tilfelli.

Hvar stendur þinn unglingur?

Einn hluti af því að taka ábyrgð er líka að átta sig á hvar maður stendur í náminu. ​
​​
Núna finnst mér æ algengara að nemendur séu ekki með heimanám á unglingastigi. Það verður til þess að foreldrar vita ekki hvar unglingurinn sinn stendur og oft kemur smá sjokk í 10. bekk þegar í ljós kemur að hann stendur bara ansi illa í stærðfræði en enginn var að láta unglinginn eða foreldri vita.

Það er t.d. ekki óalgengt (alla vega fæ ég nokkra ég tölvupósta á hverju ári varðandi þetta) að haft sé samband við foreldra sem eiga ungling í 10. bekk og tilkynnt að það sé best að hann fái aðlagað efni. Það þýðir bara eitt, en það er stjörnumerkt einkunn sem er í raun fall, þrátt fyrir að nemandinn útskrifaðist með A*.

Ég er mjög forvitin að vita, veist þú nákvæmlega hvernig barnið þitt eða unglingur stendur í stærðfræði? Hefur þú einhverja hugmynd hvort að hann sé á leið í aðlagað efni?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: