Ég fékk eftirfarandi póst frá foreldri í síðustu viku:
Sæl Gyða
Mig langar til að segja þér að dóttir mín sem lauk 4 vikna námskeiði hjá þér síðastliðinn vetur er aldeilis að blómstra með aðferðafræðina sem hún lærði hjá þér, hún fór frá því að vera með D í byrjun 10 bekkjar í að útskrifast með B í Stærðfræði og skilar 9,3 og 10 í þeim 2 prófum sem hún hefur tekið í FB það sem af er ári.
Ég er endalaust þakklátur fyrir það sem þú gerðir til að opna stærðfræði hugann hennar.
Pabbinn sem sendi mér þennan póst, skráði dóttir sína á námskeið í janúar 2023, þá hafði hún verið með D í upphafi 10. bekkjar. Strax um vorið í 10. bekk útskrifaðist hún með B í stærðfræði! Núna var hún að byrja í framhaldsskóla og er búin að fá 9,3 og 10 í þeim tveimur stærðfræðiprófum sem hún er búin að taka. Pabbinn þakkar því aðferðafræðinni sem hún lærði á námskeiðinu hjá mér.
Markmið 4 vikna námskeiðanna minna er einmitt að breyta viðhorfi nemenda gagnvart stærðfræði. Kenna þeim hvernig á að nálgast stærðfræði, hvernig heilinn virkar og þjálfa ýmsa þætti og vinnulag í þessar fjórar vikur sem nemendur eru á námskeiðinu hjá mér.
Auðvitað er ég með ítarleg og góð kennslumyndbönd, síðan þurfa nemendur að fara á gagnvirkan æfingavef til að æfa sig og fá þá endurgjöf á því hvernig gengur. Auðvitað skiptir góð kennsla í stærðfræði máli, en til þess að nemendur nái virkilega góðum tökum á stærðfræði, þá verður að kenna þeim hvernig á að nálgast stærðfræðina og kenna þeim að vinna jafnt og þétt í að byggja upp þolið til að sitja við og reyna þegar illa gengur.
Yfirleitt eru skólarnir uppteknir að því að kenna efnið, en mér finnst það svo mikil skammtíma hugsun, því þá þurfa nemendur alltaf aðstoð og stuðning. Ef allir nemendur myndu setjast niður með það hugarfar að stærðfræði á að vera krefjandi og skemmtileg, þeir eiga ekki endilega að fatta allt strax og það er bara allt í lagi að skilja ekkert og lenda í miklu brasi með dæmin – þá væru nemendur almennt með betra þol og ættu auðveldara með að tileinka sér nýtt efni. Auðvitað er sú aðferð miklu tímafrekari en þegar nemendur eru “mataðir” af kennslu og efni, en sú aðferð skilur eftir annars konar lærdóm sem hefur langtímaáhrif.
Eitt sem allir skólar geta gert strax í stærðfræði tímum hjá sér er að þjálfa þrautseigjuna, aðstoða nemendur við að þjálfa sig í að rannsaka, reyna og gefast ekki upp. Það þarf líka að kenna nemendum að það er einmitt þessi þjálfun sem skiptir svo miklu máli í stærðfræði. Það kemur alltaf eitthvað nýtt og erfiðara sem nemendur hafa ekki lært áður. Ef nemendur fara inn í það efni með breytt viðhorf, þá getur það haft mikil á það hvernig nemendur upplifa stærðfræði og hvernig þeim gengur að leysa stærðfræðiverkefni í framtíðinni.
Ég segi alltaf að fljótlegasta leiðin til að ná góðum tökum á stærðfræði, er að breyta viðhorfi nemenda gagnvart stærðfræði. Það er miklu einfaldara að breyta viðhorfi en margir halda, en því miður þá er það yfirleitt þannig að unglingnum þarf að langa til þess að ná góðum tökum á stærðfræði og þarf að vera tilbúinn að leggja eitthvað á sig. Það er því ekki nóg að foreldrar skrái unglinginn sinn á námskeið hjá mér, án þeirra samþykkis. Ef þú vilt fá póst um leið og ég opna fyrir skráningu á næsta námskeið, skráðu þig þá endilega á láta vita listann minn á stærðfræði.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari