Ef okkur langar til að bæta líkamlegt þol, þá gerum við það ekki með því að rölta í rólegheitum í klukkutíma á dag. Auðvita er klukkutíma rölt á dag frábært og betra en að sitja kyrr fyrir framan tölvuskjáinn, en ef markmiðið er að auka líkamlegt úthald, þá verðum við að reyna á okkur.
Það er því betra að hlaupa daglega mjög hratt í 20 mínútur, heldur en að rölta í klukkutíma – ef markmiðið er að bæta líkamlegt þol.
Það sama á við ef unglingurinn þinn ætlar að bæta sig sem námsmann, hann getur nefnilega látið heilann “rölta” í klukkutíma eða “hlaupa mjög hratt”.
En staðreyndin er sú, að það er svo þægilegt að leyfa heilanum bara að “rölta” alveg eins og það er miklu þægilegra að fara í rólegan göngutúr – en ávinningurinn er ekki mikill í samanburði við að leyfa heilanum að reyna mikið á sig.
Tökum dæmi:
Unglingur A er að fara að læra nýtt efni heima í stærðfræði. Hann opnar bókina og skoðar sýnidæmið og fer síðan strax í að reikna dæmin. Hann skilur ekki alveg hvað hann er að gera, en hann reynir að herma eftir sýnidæminu og nær að reikna nokkur dæmi. Eftir klukkutíma stendur hann upp, alsæll með að hafa reiknað 8 dæmi. Þessi lærdómur tók 60 mínútur. Næsta dag man hann ekki alveg hvað hann var að gera og þarf aftur að styðjast við sýnidæmið til að geta haldið áfram að reikna.
Unglingur B er að læra nýtt efni heima í stærðfræði. Hann er búinn að temja sér ákveðna aðferð til að láta heilann þurfa að erfiða mikið og notar þá aðferð til að læra nýtt efni í stærðfræði. Hann nær djúpum skilningi á efninu og reiknar 5 dæmi án þess að styðjast við sýnidæmið. Þessi lærdómur tók 20 mínútur. Daginn eftir getur hann aðstoðað sessunaut sinn í skólanum og gæti kennt þetta efni upp á töflu.
En hvaða aðferð notaði Unglingur B? Hvaða aðferð er hægt að nota, þannig að unglingurinn þinn getur varið miklu minni tíma í heimalærdóm og samt fengið meira út úr náminu?
Aðferðin er aðferð sem ég kalla “autt blað”. Ég hef skrifað um hana nokkrum sinnum áður, en ég lærði hana frá Cal Newport sem er prófessor í Georgetown University í Bandaríkjunum. Cal hefur skrifað margar bækur sem snúa að námstækni og hvernig hægt er að bæta einbeitingu í þessum heimi áreita.
Autt blað aðferðin er aðferð sem hann prófaði á sjálfum sér þegar hann var í námi, sem varð til þess að hann fékk A í öllum fögum. Eftir að hann tileinkaði sér þessa aðferð þurfti hann að verja svo litlum tíma í að læra fyrir próf að hann vorkenndi öllum í kringum sig sem voru að læra kvöldið fyrir próf svo hann þóttist stundum þurfa að læra. Í kjölfarið skrifaði hann bókina Straight A student þar sem hann kennir meðal annars þessa aðferð.
Aðferðina er hægt að nota á öll fög. Ef við aðlögum hana að stærðfræði eins og Unglingur B notaði hana þá virkar hún svona:
Unglingur B les yfir sýnidæmið í stærðfræðibókinni með það viðhorf að þurfa að skilja sýnidæmið vel og kenna öðrum. Þegar hann er búinn að fara yfir sýnidæmið þá lokar hann bókinni og tekur autt blað.
Á þetta auða blað skrifar hann upp dæmið og leysir það eftir bestu getu og útskýrir eins og hann sé að kenna öðrum að skilja sýnidæmið. Ef hann hefur tök á að tala upphátt, þá er það betra.
Ef hann stoppar og finnst hann ekki geta klárað að skýra út sýnidæmið á auða blaðinu, þá fer hann aftur til baka, les aftur yfir sýnidæmið þar til hann telur sig hafa náð góðum tökum á efninu. Svo lokar hann aftur bókinni, tekur aftur autt blað og reynir aftur.
Þessi aðferð reynir gríðarlega á. Það þýðir ekkert annað en að vera með fulla einbeitingu, en ávinningurinn er að sama skapi gríðarlegur.
Ef við yfirfærum þessa aðferð yfir á efni í sögu. Þá væri það þannig að unglingurinn þinn les eina blaðsíðu eða einn kafla í sögu bókinni með það viðhorf að þurfa að endursegja efnið. Þegar hann telur sig skilja og muna hvað kom fram, þá lokar hann bókinni, tekur autt blað og byrjar að punkta niður mikilvægustu atriðin sem komu fram – eins og hann sé að kenna öðrum. Ef hann stoppar og finnst hann ekki muna neitt, þá fer hann aftur til baka, endurtekur ferlið og prófar síðan aftur að loka bókinni og taka autt blað.
Reyndu endilega að selja unglingnum þínum þessa aðferð. En það er mikilvægt að unglingurinn þinn geri sér grein fyrir að þessi aðferð reynir svakalega á heilann, en vonandi vel þess virði.
Ertu með einhverjar spurningar? Áttu ungling sem þarf að taka sig á í stærðfræði og námi almennt?
Láttu mig endilega vita ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi unglinginn þinn og nám með því að svar þessum pósti. Það er algjörlega ókeypis og ég veit ekkert skemmtilegra en að heyra frá foreldrum og enn skemmtilegra ef ég get gefið góð ráð.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is
PS. Ef þér fannst þessi póstur áhugaverður, þá hef ég áður skrifað um þessa aðferð “autt blað” og þú gætir fengið fleiri hugmyndir fyrir þinn ungling
Læra fyrir stærðfræðipróf
Þrjú stig náms
1 klst. ekki sama og 1 klst.