Þegar við viljum ná einhverju markmiði í lífinu, þá er best að ákveða fyrst markmiðið og finna svo út hvernig við náum markmiðinu.
Ef heilinn veit að við ætlum að ná þessu markmiði, þá getur hann verið ótrúlega útsjónarsamur að finna leiðir til þess.
Segjum t.d. að ég ætli að ganga í fyrirtæki og safna styrkjum fyrir eitthvað gott málefni. Ef ég byrja bara að rölta á milli fyrirtækja og athuga hvort einhver vilji styrkja, þá mun söfnunarupphæðin mín ekki verða mjög há.
En ef ég byrja á því að setja mér markmið, t.d. að safna einni milljón, þá get ég byrjað að plana. Í hvaða fyrirtæki ætla ég að fara og hvernig ætla ég að sannfæra þá um að styrkja málefnið. Síðan eftir einn dag, þá er ég komin með upplýsingar til að plana næstu daga. Þarf ég t.d. að ná að fara í fleiri fyrirtæki á hverjum degi, eru einhver fyrirtæki líklegri til að veita styrk en önnur o.s.frv.
Þegar kemur að námi, þá er sama uppi á teningnum. Hver nemandi verður að ákveða eitthvað markmið sem honum langar mikið til að ná og finna svo út hvernig hann fer að því að ná markmiðinu.
Segjum t.d. að ég ætli að ná góðum tökum á stærðfræði (fá B í öllum verkefnum og prófum). Þetta er ákvörðun sem ég er búin að taka og þetta er eitthvað sem ég ætla mér.
Næsta skref er að finna út hvað ég þarf að gera til þess að ná þessu markmiði. Ég þarf t.d.
– að æfa mig í að sýna þrautseigju
– læra að spyrja góðra spurninga ef ég skil ekki efnið
– læra jafnt og þétt (læra jafnvel heima þrátt fyrir að það sé ekki heimavinna)
– prófa aðrar aðferðir ef aðferðin í bókinni er ekki nógu góð
– læra að tileinka mér stærðfræði viðhorf
– líta á hvert verkefni sem rannsóknarvinnu og nálgast það þannig
Allt of margir nemendur meta stöðuna sína og setja sér svo markmið. T.d. nemandi sem hefur verið að fá D í öllum prófum, hugsar fyrst að það sé líklega best og raunhæft að stefna á C. Það er ekki vegna þess að þessi nemandi getur ekki náð B, heldur vegna þess að þessi nemandi er allt of mikið að spá í núverandi stöðu og meta hvað hann vill út frá því.
Ef nemendur vilja virkilega taka sig á í námi, þá þarf bara að ákveða það og síðan finna út hvað þarf að gera til þess að ná því markmiði. Ég er ekki að segja að nemendur hoppi úr D í B, en hvers vegna í ósköpunum að stefna á C ef nemandanum langar virkilega í B og er tilbúinn að leggja mikið á sig?
Mér finnst að við þurfum að kenna nemendum að þora að setja sér markmið. Ef nemandi setur sér markmið að ná B í næsta verkefni eða prófi, þá þarf hann bara að finna út hvað hann þarf að gera til að ná því. Það er óþarfi að velta sér upp úr fyrri einkunnum og öllum afsökunum fyrir því að hann geti aldrei náð B.
Þetta tengist líka 100 milljóna spurningunni minni sem ég nota oft á nemendur:
Ef nemandi er í erfiðleikum með dæmi og er búinn að ákveða að gefast upp, því hann geti alls ekki leyst þetta dæmi og ég segi við hann “ímyndaðu þér að ég myndi gefa þér 100 milljónir fyrir að geta fundið út úr þessu og leyst þetta dæmi – gætir þú það?”.
Svarið er oftast fyrst, “ætlaru að gefa mér þennan pening” en svo hugsa þeir sig um og segja “já, auðvitað gæti ég fundið út úr þessu ef ég myndi reyna meira”.
Þarna var markmiðið allt í einu að fá 100 milljónir – og til að fá þær þarf nemandinn að finna út hvernig hann leysir dæmið.
Ég veit ekki hvort ég er að ná að skýra þetta út, finnst ég hálfpartinn vera að skrifa í hringi. En mér finnst bara svo mikilvægt að nemendur trúi á sig og setji sér markmið sem þeir vilja ná! og finna síðan leiðir og hvað þarf að gera til að ná því markmiði.
Markmiðið þarf samt að vera það spennandi að nemandinn hætti ekki við þegar hann er í “finna út” fasanum og áttar sig á því að það er ansi mikið sem hann þarf að leggja á sig til að ná markmiðinu.
—
Hvernig getur þú sem foreldri nýtt þér þetta?
Eigðu samtal við unglinginn þinn og sjáðu hvort að hann hafi stórt markmið sem hann langar að ná, án þess að velta of mikið fyrir sér hvort að það sé raunhæft. Síðan biðja hann að rannsaka og koma sjálfur með hugmyndir að því hvað hann þarf að gera og er tilbúinn að gera til að ná því markmiði.
Bestu kveðjur,
Gyða stæðrfræðikennari
hjá stærðfræði.is