Í vikunni var frétt af nemanda, Herdísi Ósk, sem útskrifaðist með fyrstu einkunn í BA prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Það væri kannski ekki frásögu færandi nema vegna þess að hún fékk að heyra það frá kennara í grunnskóla að hún væri vitlaus og löt og gæti ekki lært eitthvað mikilvægt.
Það sem kennarar segja við nemendur hefur miklu meiri áhrif á þá heldur en ef einhver annar einstaklingur segir nákvæmlega það sama. Þegar kennarar segja við nemendur að þeir geti ekki lært eða séu vitlausir – þá situr það í nemendum og smátt og smátt fara nemendur að trúa því að kennarinn hafi rétt fyrir sér.
Í tilfelli Herdísar, þá er hún bæði með lesblindu og athyglisbrest, sem var ekki greint í grunnskóla. Þegar hún fékk síðan seinna aðstoð, þá áttaði hún sig á því að hún væri hvorki löt né vitlaus!
Ég er í allskonar umræðuhópum fyrir kennara á Facebook og í einum hópnum kom þessi frétt um Herdísi til tals. Þar voru flestir á því að þetta hefði nú bara verið svona í “gamla daga”. En ég get sagt með fullri vissu að það eru fullt af nemendum enn í dag að fá svona skilaboð frá kennurum sínum um að þeir geti ekki lært hitt eða þetta eða “orðið eitthvað”.
Fyrir ári síðan sagði ég skilið við kennslu í kennslustofu, en ég hafði verið að kenna í tæpan áratug stærðfræði á framhaldsskólastigi fyrir nemendur sem fengu ekki inni í neinum framhaldsskóla. Fyrir hvern hóp byrjaði ég alltaf með “pepp fyrirlestur” um stærðfræði, þar sem ég sagði nemendum frá því hvernig heilinn virkar, hvað það skiptir miklu máli að tileinka sér “vaxandi hugarfar”, hvað þeir geta gert og sagt til að byggja upp sjálfstraust í stærðfræði o.fl. Í lok fyrirlestursins gaf ég síðan mjög skýr skilaboð sem voru að “allir geta lært stærðfræði – og allir geta orðið mjög góðir í stærðfræði”.
Í kjölfarið hafa alltaf nokkrir nemendur, á hverri einustu önn, látið mig vita að það væri búið að segja þeim eitthvað allt annað t.d. að þeir gætu bara aldrei lært stærðfræði eða lært það sem þeim langaði að læra.
Nemendur í hópunum sem ég kenndi (í kennslustofu) eru það sem myndi flokkast sem slökustu nemendur i stærðfræði og því ekki endilega þverskurður af nemendum sem eru að koma úr grunnskóla. En ég velti þó fyrir mér hvort að skólaganga einhverra þeirra hefði orðið önnur ef enginn hefði gefist upp á þeim, enginn kennari hefði sagt þeim að þeir gætu ekki lært hitt eða þetta, eða væru of vitlausir til að læra. Hverju hefði það breytt fyrir þessa nemendur ef þeir hefðu eingöngu haft kennara í kringum sig sem trúðu á þá, segðu þeim að þeir gætu þetta?
Spurðu barnið þitt eða ungling hvort að einhver kennari hafi sagt þeim að þeir gætu ekki lært eitthvað, eða orðið eitthvað. Ef svarið er nei, spurðu þá hvort að unglingurinn þinn hafi heyrt kennara tala svona til einhvers annars nemanda.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is