Hefur þú eitthvað velt fyrir þér lesfimiprófunum í grunnskóla þar sem leshraðinn er mældur? Skv. Menntamálastofnun þá er lögð mikil áhersla á leshraðamælingar þar sem það eru “vísbendingar um sterk tengsl milli lestrarhraða og lesskilnings”.
En er það virkilega þannig að ef við leggjum áherslu á að kenna nemendum að lesa hratt að þá aukist lesskilningur þeirra? Miðað við hvað lesskilningur barna hefur hrakað mikið síðustu ár, þá held ég að það sé kominn tími til að kanna aðrar leiðir til að bæta lesskilning.
En það er ekki bara slakur árangur nemenda sem ég hef áhyggjur af, heldur líka vanlíðan margra nemenda þegar kemur að þessum hraðaprófum og hvaða skilaboð þau séu að senda nemendum. Viljum við virkilega senda þau skilaboð til nemenda, að ef þeir eru ekki fljótir að lesa, þá séu þeir ekki góðir í lestri og lesskilningi? Það eru undarleg skilaboð, þar sem ég veit um marga sem lesa hægt (á mælikvarða lesfimiprófanna) en hafa mjög góðan lesskilning.
Er til betri leið til að bæta lesskilning nemenda?
Fyrir rúmu ári síðan heyrði ég af Hermundi Sigmundssyni. Hann er bæði prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann í Þrándheimi í Noregi þar sem sérstakt rannsóknarsvið hans er meðal annars læsi og lestrarnám. Hann vill að við stoppum allar leshraðamælingar og vill frekar leggja áherslu á lesskilning og skapandi skrif.
Hermundur er í forsvari fyrir verkefni sem heitir Kveikjum neistann og er tilraunaverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja. Verkefnið byrjaði síðasta haust og 1. bekkur var að klára fyrsta ár þessa verkefnis og árangur þess er virkilega aðdáunarverður!
Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til um þetta verkefni, þá gengur lestrarkennslan út á að kenna lestur á einstaklingsmiðaðan hátt þar sem hver nemandi er að fá verkefni við hæfi og byggja svo ofan á það.
Það má segja að stigin séu þrjú og til að komast á næsta stig þurfa nemendur að fara í stöðumat, til að tryggja að þeir hafi þann grunn sem þarf til að fara á næsta stig.
Á fyrsta stiginu er áhersla á að kenna hljóð bókstafanna og tengja þá saman. Á öðru stigi er áhersla á þjálfun lesskilnings þar sem hver nemandi er með verkefni við hæfi. Á þriðja stigi eru börnin læs (enda hafa þau staðist stöðumat) og þá er áherslan á áframhaldandi þjálfun í lestri, lesskilningi og framsögn. Nemendur á þessu þriðja stigi hafa það markmið að lesa reiprennandi ólíkar bækur sem þeir þó velja sjálfir enda skiptir máli að tengja æfingarnar við efni sem nemendur hafa áhuga á.
Mér finnst þessi nálgun á lestrarkennslu mun mannlegri en hraðaprófin og líklegri til árangurs þegar kemur að lesskilningi, en markmið þessa verkefnis er einnig að bæta líðan nemenda!
Ef við förum aftur til baka í lesfimiprófin sem eru í grunnskólum landsins, þá set ég stórt spurningamerki við hvers vegna verið er að láta alla nemendur í 1. bekk taka lesfimipróf? Ég fæ sting í hjartað við tilhugsunina að nemandi sem sé enn að hljóða stafina sé settur í þær aðstæður.
Hversu hratt á unglingurinn þinn að geta lesið?
Þrátt fyrir að ég sé ekki hlynnt hraðamælingum á lestri, þá er ég hlynnt því að nemendur læri ákveðna tækni til að lesa hraðar þegar þeir hafa náð góðum tökum á lestrinum. Sú tækni byggir á því að nemendur eru ekki að lesa upphátt heldur renna fingrunum eftir textanum með ákveðinni tækni til að ná að innbyrða mikið magn af texta á stuttum tíma. Ég mæli með því að nemendur læri þessa tækni fyrr en seinna, best væri að læra hana áður en nemendur byrja í framhaldsskóla. Ég fór sjálf á hraðlestrarnámskeið hjá Hraðlestrarskólanum eftir að hafa klárað þrjár háskólagráður – og það er sko sannarlega betra seint en aldrei, því við hættum ekki að lesa eftir að við klárum nám.
En er virkilega svona slæmt að vera að mæla leshraða hjá nemendum? Fyrir utan kvíðann sem þau valda og efasemdum um að þau séu að skila tilætluðum árangri, þá kom það mér á óvart hversu hratt nemendur eiga að geta lesið. Ég hef nefnilega prófað að lesa á þessum hraða og mér fannst það óþægilega hratt. Það er ekki mikið mál að ná þessum leshraða þegar lesið er í hljóði, en þú átt að lesa upphátt, hafa réttan hrynjanda og færð mínus stig ef þú missir úr orð, stamar eða lest óskýrt.
Til að ég tengi þennan póst við stærðfræði, þá er ég ekki hlynnt hraðamælingum almennt – ekki heldur í stærðfræði. Alveg eins og með lesturinn, þá þarf að vera meiri áhersla á að nemendur nái góðum grunni, fái verkefni við hæfi, nægar æfingar til að ná góðum tökum á efninu ásamt eftirfylgni. Ég er ekki að segja að nemendur eigi að fá endalausan tíma til að vinna í verkefnum eða prófum, en nemendur eiga ekki að upplifa að þeir hafi ekki nægan tíma til að hugsa og njóta þess að leysa krefjandi og skemmtileg verkefni.
Nú er komið að þér, kæra foreldri!
Hvernig væri að spreyta sig og mæla lestrarhraðann?! Það eina sem þú þarft að gera er að sækja símann þinn, stilla á eina mínútu og lesa svo upphátt, með réttum hrynjanda og skýrt þennan texta (smelltu hér).
Núna langar mig að heyra frá þér! Tókstu prófið? Náðir þú að lesa öll orðin á einni mínútu? Hvernig fannst þér að lesa þetta svona upphátt? Finnst þér þetta eðlilegur hraði?
Hefur barnið þitt eða unglingur þinn deilt með þér hvernig honum líður fyrir þessi próf eða hvað honum finnst um þessi próf?
Ef þú hefur tíma, þá máttu endilega senda mér póst og láta mig vita 🙂
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is