Núna er grunnskólinn búinn hjá flestum nemendum og þá liggur fyrir afrakstur síðasta skólaárs. Þrátt fyrir að það sé erfitt að átta sig á einkunnum nemenda og hvað þær þýða, þá í stuttu máli er gott að fá B og er það jafnvel besta einkunnin í sumum skólum. En það er ekki gott að fá C og mjög slæmt að fá D.
Nemendur sem ná ekki B í lokaeinkunn í kjarnafögunum í 10. bekk geta t.d. ekki sótt um skóla með bekkjarkerfi og geta ekki byrjað strax í framhaldsskólaáföngum í þessum fögum, heldur þurfa þeir að taka áfanga á grunnskólaþrepi til að byrja með.
Síðustu daga hef ég fengið pósta frá foreldrum sem voru í sambandi við mig síðasta sumar eða síðasta haust, vegna þess að unglingurinn þeirra átti að fara í stjörnumerkingu eða fá aðlagað námsefni (sem er það sama). Póstar síðustu daga hafa verið þakkarpóstar vegna góðs gengis, en flestir póstarnir hafa verið frá foreldrum unglinga sem var ráðlagt að fara í aðlagað efni í upphafi 10. bekkjar (eða í lok 9. bekkjar), en þessir unglingar náðu að snúa við blaðinu og enda svo með B (eða hærra) í lokaeinkunn í stærðfræði.
Hvað þýðir að vera með stjörnumerkt í stærðfræði?
Þeir nemendur sem fá stjörnumerktar einkunnir í grunnskóla eru í aðlöguðu námsefni. Þessir nemendur eiga ekki séns að komast inn í framhaldsskóla með bekkjarkerfi eða klára grunnskólastærðfræði í grunnskóla. Sumir skólar svindla aðeins með þessar stjörnumerktu einkunnir, en ég veit dæmi um nokkra skóla sem gefa nemendum kost á að fá C í lokaeinkunn í stærðfræði í stað þess að fá stjörnumerkta einkunn. En með því eru skólarnir að leyfa nemendum að sleppa við einn grunnskólaáfanga í framhaldsskóla.
Það er nefnilega þannig að nemendur með stjörnumerkta einkunn í kjarnafögum í grunnskóla, eru metnir með D í einkunn í þeim fögum. Það þýðir að þeir nemendur eiga að taka tvo áfanga á grunnskólaþrepi í framhaldsskóla en ekki bara einn áfanga.
Hvernig lenda nemendur í stjörnumerkingu (sem er sama og aðlagað námsefni)?
Nemendur sem standa höllum fæti í stærðfræði eru oft sannfærðir um (ásamt foreldrum) að það sé best fyrir nemandann að fara í aðlagað námsefni. Það eru færð ýmis jákvæð rök fyrir því, en eins og ég skrifaði hér að ofan hefur það áhrif á inntöku nemenda í framhaldsskóla – sama hversu vel nemendur standa sig í aðlagaða efninu, þá eru þeir metnir inn eins og þeir hafi fengið D – ef einkunnin er stjörnumerkt. Sem sagt, A* (stjörnumerkt) er metið sem D í framhaldsskóla. Foreldrar koma yfirleitt ofan af fjöllum þegar þeir átta sig á því hvaða afleiðingar þetta aðlagaða námsefni hefur fyrir unglinginn sinn.
Eiga nemendur (og foreldrar) að sætta sig við aðlagað námsefni?
Mitt stutta svar er nei.
Ég kenndi í tæpan áratug við skóla sem tók við nemendum sem komust ekki í framhaldsskóla vegna þess að þeir féllu í kjarnafögunum. Yfirleitt voru þetta nemendur með einhverjar hamlanir eins og ADHD, lága greindarvísitölu eða stærðfræðiblindu. Ég varð alltaf jafn hissa, því öll þessi ár þá fékk ég aldrei til mín nemanda sem gat ekki lært stærðfræði og hefði átt að fara í aðlagað efni. Oft á tíðum fékk ég meir að segja til mín nemendur sem ég trúði ekki að hefðu verið “stjörnumerktir” því að þeir voru með góðan grunn í stærðfræði. Hvers vegna þeir fengu ekki að vera í sömu krefjandi og skemmtilegu stærðfræði og jafnaldrar þeirra er mér hulin ráðgáta.
Mér finnst við vera að bregðast nemendum með því að láta þá fara í aðlagað efni. Það versta við þetta er að foreldrar hafa oftast ekki minnstan grun um að unglingurinn þeirra standi höllum fæti, fyrr en hugmyndin um að unglingurinn ætti að fá aðlagað efni kemur upp. Í sumum tilfellum kemur þessi hugmynd upp þegar vel er liðið á haustönn í 10. bekk og þá gæti verið erfitt að snúa við blaðinu (en aldrei vonlaust!).
Er hægt að komast út stjörnumerkingu?
Já! Ég veit ekki hvað oft ég hef fengið til mín nemendur með C og D, sem hafa farið í gegnum eitt 4 vikna námskeið á netinu og tekið svo stærðfræðina föstum tökum og verið með B eða hærra í lokaeinkunn. Þetta er ekki einu sinni jafn flókið og það hljómar.
En það sem þarf að vera til staðar er vilji hjá nemendum að bæta sig í stærðfræði og þeir þurfa að vera tilbúnir að leggja á sig vinnuna sem þarf til að ná árangri.
Getur verið að barnið þitt eða unglingur sé að stefna í aðlagað námsefni í stærðfræði?
Er barnið þitt eða unglingur kannski kominn í aðlagað efni?
Ekki hika við að vera í sambandi við mig ef þú vilt fá ráðleggingar um næstu skref eða ert að velta þessu fyrir þér. Það er best að senda mér póst með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is