Hvert ertu kominn eða hvert ætlaru?
Ég hef áður vitnað bókina The Gap and the Gain eftir Dan Sullivan og Dr. Benjamin Hardy, þar sem hún fékk mig til að hugsa heilmikið um hvað það skiptir máli hvernig við hugsum og tölum um það sem skiptir okkur máli.
Flestir sem eru metnaðarfullir og vilja ná langt í lífinu eru óhamingjusamir (skv. höfundum), einungis vegna þess að þeir horfa alltof mikið á hvar þeir eru í dag og hvert þeir stefna, sem leiðir þá í gjánna (e. the gap). Í stað þess að hugsa hversu langt þeir eru komnir miðað við þann stað sem þeir byrjuðu á (e. the gain).
Skv. þessari bók, þurfa þessir metnaðarfullu einstaklingar að breyta viðhorfi sínu þegar þeir detta í neikvæðisgírinn eða gjánna og hugsa frekar hversu langt þeir eru komnir, því þá átta þeir sig á því að þeir hafa komið langan veg og ættu að vera virkilega þakklátir fyrir það. Þetta er eitthvað sem höfundarnir eru búnir að rannsaka og prófa og virkar!
Margir nemendur ákveða einn daginn að taka sig verulega á þegar kemur að námi t.d. “ég ætla að fara úr C í B+ í stærðfræði”. En það getur tekið tíma þar til þeir komast á þann stað sem þeir vilja – en þangað til er mikilvægt að horfa á bætinguna sem hefur átt sér stað, en ekki að horfa eingöngu á hversu langt þeir eiga eftir.
En hvernig nemendur orða hlutina skiptir líka miklu máli. T.d. hef ég oft talað um muninn á orðunum langa og ætla. Í stuttu máli er það þannig að ef við segjum “mig langar að ná árangri” þá getur það boðið upp á við búum til afsakanir. En er við segjum “ég ætla að ná árangri” þá eru meiri líkur á að við tökum ekki neinar afsakanir gildar og náum árangri.
Í þessari bók er talað um muninn á orðunum (á ensku) “need” annars vegar og “want” hins vegar. Ef ég segi við sjálfa mig “ég verð að fá A” þá erum við að setja óþarfa pressu á okkur sem leiðir ekki endilega til þess að við gerum eitthvað í því. En ef ég segi “ég vil fá A” þá er ég að gefa í skyn að ég sé tilbúin að leggja á mig og vinna vinnuna sem þarf til þess að fá A.
Niðurstaðan skv. bókinni góðu er þessi: ef við viljum vera hamingjusöm þá er gott að leggja áherslu á hversu mikið við erum búin að leggja á okkur eða hversu langt við erum komin OG við þurfum að vanda okkur hvernig við tölum um markmiðin okkar, því það getur haft áhrif á það hvort að við séum tilbúin að vinna fyrir þeim eða ekki.
Og til að segja eitthvað að lokum, þá er enn tími til að taka stærðfræðina föstum tökum! En nemendur þurfa að sjálfsögðu að vilja bæta sig og sýna þrautseigju meðan þeir eru að ná því markmiði. Ég geri mitt besta til að peppa nemendur á námskeiðunum mínum – en að sjálfsögðu dugar það ekki nema nemendur virkilega ætli að bæta sig og ná árangri.