Gleðilegan sunnudag!
Í dag langar mig að skrifa smá minningargrein um samræmdu prófin. En eins og hefur komið fram í fjölmiðlum var hætt við þessi próf þegar einungis tvær vikur voru í samræmdu prófin í 9. bekk. Skv. grunnskólalögum ber ráðaneytinu að leggja fyrir þessi próf, en ég geri ráð fyrir að það sé verið að fara að lögum þegar þau voru felld niður…
Líklega voru það tæknileg vandamál sem snéru að fyrirlögn prófanna sem fylltu mælinn. Núna stendur til að endurhugsa þessi próf (sem var reyndar alltaf á planinu), en ég spái því að það verði ekki komin lausn á því máli fyrr en í fyrsta lagi eftir 5 ár – og ég er ekki að grínast, heldur er þetta eitthvað sem ég er nokkuð sannfærð um.
Helstu kostir samræmdu prófanna að mínu mati eru margir og hér fyrir neðan ætla ég að nefna nokkra þeirra.
Ekki huglægt mat
Í samræmdu prófunum fengu nemendur að sýna og sanna hvað þeir gætu. Niðurstaða prófanna var ekki huglægt mat hvers skóla eða kennara. Samræmda prófið í stærðfræði gaf til dæmis mjög skýra niðurstöðu á því hvar nemendur stæðu sig í fjórum ólíkum efnisþáttum (reikniaðgerðum, hlutföllum, algebru og rúmfræði).
Í dag eru einkunnir í bókstöfum. Markmiðið með því kerfi er að allir nemendur fái B (sem í gamla kerfinu, sem við foreldrar þekkjum, eru einkunnir á bilinu 5-10). Hver kennari þarf að leggja huglægt mat á hvort að lokaeinkunn nemanda sé B eða C+. Foreldrar og nemendur vita því ekki hvort að nemandinn sé mjög sterkur eða alveg á mörkum þess að falla. Þeim foreldrum sem finnst skrítið að C+ sé fall, geta horft á þetta myndband þar sem ég fer yfir hvernig einkunnir í 10. bekk grunnskóla eru metnar inn í framhaldsskóla.
Tækifæri til að bæta sig
Þrátt fyrir að markmið samræmdu prófanna hafi verið að taka stöðu á nemendum og ekki ætlast til þess að nemendur undirbyggju sig sérstaklega fyrir þessi próf, þá var það oft þannig að nemendum langaði að undirbúa sig fyrir þessi próf og við þann undirbúning bættu þeir sig verulega í stærðfræði og fengu jafnvel brennandi áhuga á stærðfræði.
Samræmdu prófin voru því oft mikil hvatning fyrir nemendur að bæta sig og taka sig á í stærðfræði.
Tækifæri til að fá aðstoð
Eitt af markmiðum samræmdu prófanna var til þess að nemendur, foreldrar og kennarar sæju hvar nemendur stæðu til þess að geta veitt sérhverjum nemanda stuðning við hæfi. Í samræmda prófinu í stærðfræði var t.d. auðvelt að sjá í hvaða efnisþáttum nemendur þyrftu helst að bæta sig og þá var hægt veita nemendum auka stuðning innan skólans á því sviði.
Aðhald fyrir skólanna
Mér finnst mjög mikilvægt að veita skólum landsins aðhald. Það verður að vera eitthvað mælitæki sem metur hvort að skólarnir séu að veita nemendum menntun í samræmi við aðalnámskrá grunnskolanna. Núna þegar aðhaldið verður ekkert næstu árin, þá verður áhugavert að sjá (eftir 5 ár) hvernig skólarnir eru að standa sig.
Framhaldsskólar hafa metið samræmd próf
Ég veit um nokkur dæmi þar sem nemendur áttu erfitt í 10. bekk, voru að glíma við veikindi, upplifðu mikla vanlíðan að mæta í skóla eða nenntu ekki að skila inn verkefnum og fengu þar af leiðandi ekki góða lokaeinkunn í 10. bekk. En af því þeim gekk vel í samræmdu prófunum, gátu þessir nemendur sent samræmdu einkunnina sína inn í (suma) framhaldsskóla og fengið metið að þeir hafi klárað stærðfræði, ensku eða íslensku á grunnskólaþrepi.
Hægt að fara beint í framhaldsskóla
Nemendur sem hafa fengið A í samræmdu prófunum (stærðfræði, íslensku og ensku) hefur staðið til boða að fara beint Í framhaldsskóla. Sem sagt, nemandi í 9. bekk gat farið í framahaldsskóla á næsta skólaári. Ég er ekki að segja að það sé eitthvað sem hafi hentað öllum, en þessi kostur er mikilvægur fyrir nemendur sem líður illa í grunnskóla og getur verið mikill hagur fyrir þá að hafa val um að fara beint í framhaldsskóla.
Ég veit að margir kennarar og foreldrar hafa verið á móti samræmdu prófunum. Allir mega hafa sína skoðun, en ég vona samt að það sé meirihluti foreldra og kennara sem séu sammála um að það verði að vera einhver utanaðkomandi aðili á vegum ráðuneytisins sem leggur fyrir samræmd próf til að nemendur og foreldrar viti hvar unglingurinn þeirra stendur námslega séð og til að veita skólum landsins aðhald til að tryggja að gæði menntunar innan skólanna sé í samræmi við aðalnámskrá grunnskólanna.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is