Það eru fullt af mýtum í gangi um stærðfræði, ein er sú að þeir sem séu góðir í stærðfræði séu fljótir að fatta og ná tökum á nýju efni.
Ég skil vel að þetta sé skoðun margra, sérstaklega þegar nemendur eru vanir að taka próf þar sem hraði skiptir miklu máli.
En staðreyndin er sú að nemendur geta verið mjög lengi að fatta og ná tökum á nýju efni í stærðfræði, þrátt fyrir að vera mjög sterkir í stærðfræði. Við lærum nefnilega öll á ólíkan hátt. Hefðbundin kennsla (t.d. ein aðferð út frá kennslubók) hentar ákveðnum hluta nemenda en aðrir þurfa að skilja efnið með öðrum leiðum áður en þeir ná góðum tökum á efninu.
Það sem mér finnst áhugavert er að margir af okkar bestu vísindamönnum og stærðfræðingum héldu að þeir væru heimskir því þeir voru svo lengi að hugsa. En það er kannski ástæða þess að þeir urðu mjög sterkir í sínu fagi, þeir þurftu nefnilega að skilja efnið mjög vel út frá ýmsum ólíkum sjónarhornum.
Laurent Schwarts hlaut The Fields Medal, sem er eins og Nóbelsverðlaun í stærðfræði. Þegar hann gaf út ævisögu sína þá kom fram að þegar hann var í grunnskóla þá trúði hann því að hann væri heimskur, því hann væri svo lengi að fatta og ná tökum á nýju efni. Hann sagði engum frá því en þetta var eitthvað sem hann var sannfærður um og skammaðist sín fyrir. En þegar hann var 17 ára þá tók hann stöðuna á sjálfum sér og áttaði sig á því að það að vera fljótur að fatta hefði ekkert með greind að gera. Það sem skipti mestu máli væri að skilja efnið vel og átta sig á því hvernig það tengist öðru efni. Sem sagt, hvort einhver sé fljótur að fatta eða mjög lengi að ná tökum á nýju efni hefði ekkert með greind að gera.
Önnur áhugaverð saga er af Santiago Ramón y Cajal. En skólagangan hjá honum gekk brösuglega því hann átti við hegðunarvanda að stríða og var einnig lengi að hugsa og ná tökum á nýju efni. Hann endaði þó með að fá Nóbelsverðlaun og hann er í dag talinn faðir nútíma taugavísinda. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði náð svona miklum árangri á þessu sviði, þá svaraði hann að hann hefði gert þessar miklu uppgötvanir einmitt vegna þess að hann var svo lengi að hugsa og átti erfitt með að ná tökum á nýju efni. Það varð til þess að hann þurfti að rannsaka meira en aðrir til að ná betri skilningi, sem varð til þess að hann sá og uppgötvaði eitthvað sem þeir sem voru fljótir að hugsa einfaldlega sáu ekki.
Árið 2014 var Maryam Mirzakhani fyrsta konan til að hljóta The Fields Medal. Hún sagði að hún hefði alltaf verið mjög lengi að hugsa og þurfti að verja töluvert meiri tíma til að ná tökum á nýju efni því hún þurfti að skilja það út frá ólíkum leiðum. Hún notaði mikið teikningar til að reyna að skilja stærðfræði og meira að segja dóttir hennar var sannfærð um að hún væri myndlistarmaður því innan um alla útreikninga og formúlur voru teikningar.
Hvernig líður nemendum þegar þeir eru lengi að fatta nýtt efni í stærðfræði og skilja ekki efnið eins og það er sett fram í stærðfræðibókum? Sumir halda þá að þeir séu heimskir og geti ekki lært stærðfræði. Þessum nemendum fer að finnast stærðfræði leiðinleg.
Hvað getum við gert?
Við þurfum því að breiða út boðskapinn um að það skiptir engu máli hvort nemendur séu fljótir eða lengi að hugsa í stærðfræði – allir geta orðið góðir í stærðfræði. Við þurfum líka að leyfa nemendum að leysa hvert verkefni í stærðfræði út frá ólíkum hliðum og með nokkrum ólíkum leiðum.
Þegar unglingurinn þinn skilur ekki eitthvað efni í stærðfræði, fáðu hann til að teikna og sjá þetta nýja efni frá ólíkum hliðum. Það er líka hægt að gúggla þetta efni og sjá hvort að hægt sé að nálgast það með öðrum hætti heldur en bókin sýnir.
Ég segi enn og aftur, stærðfræði er rannsóknarvinna. Ef nemendur nálgast stærðfræðina með það viðhorf, þá eru þeir mun opnari fyrir því að finna leiðir til að skilja efnið með öðrum hætti en bækur og kennarar sýna.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is