fbpx

Hliðarhugsun

Yfirleitt þegar við erum að leysa verkefni í stærðfræði þá notum við hefðbundna hugsun, við greinum verkefnið og förum svo strax í að leysa það með því að nota rökrétta hugsun. En þegar við erum að leysa gátur þá er yfirleitt ekki árangursríkt að nota þessa aðferð því að þá erum við nánast búin að útiloka möguleikann á að geta leyst gátuna.

Hugsunin sem við þurfum að beita við lausn á gátum kallast hliðarhugsun (e. lateral thinking).

Hliðarhugsun



Tvö stig hugsunar

Þegar við nálgumst verkefni er hægt að skipta hugsuninni upp í tvö stig. Í fyrra stiginu erum við að ramma verkefnið inn og skilgreina vandamálið. Í seinna stiginu leysum við verkefnið (eins og við skilgreindum það) með rökréttri hugsun.

Þegar við erum að leysa gátur, þá er hættulegt að ætla að skilgreina verkefnið fyrst og horfa síðan eingöngu á leiðir til að leysa vandamálið. Hérna þurfum við að beita hliðarhugsun. Þ.e.a.s. við þurfum að verja mestum tíma í að skilgreina verkefnið (á fyrra stiginu) og nánast vera á því stigi þar til lausnin er komin.

Í skólakerfinu er mikið lagt upp úr að kenna nemendum hefðbundna hugsun, en ef við ætlum að þjálfa skapandi hugsun hjá nemendum sem nýtist til dæmis í nýsköpun þá er nauðsynlegt að kenna hliðarhugsun.

Ég veit um mörg dæmi þess að nýjar uppgötvanir hafi komið fram hjá aðilum sem voru ekki endilega reynslumiklir vísindamenn og náðu þess vegna að nota hliðarhugsun, því vísindamennirnir sem voru á kafi í að rannsaka verkefnið voru að nota hefðbundna hugsun og sáu þá einfaldlega ekki lausnina.

Ég hef stundum tekið að mér að kenna minni námskeið (í “real life”) þar sem ég fer í gátur og þrautalausnir. Ég kenndi þá nemendum sem höfðu verið áður hjá mér í hefðbundnum stærðfræðiáföngum svo ég þekkti vel stöðu þeirra í stærðfræði. Það sem kom mér svo skemmtilega á óvart var að yfirleitt voru nemendur sem stóðu hallari fæti í stærðfræði að ganga betur með að leysa flóknar gátur, heldur en þeir nemendur sem voru almennt sterkari í stærðfræði!

En það er kannski ekki skrítið, nemendur sem eru sterkir í stærðfræði meta staðreyndir og fara svo strax í að leysa verkefnin á rökréttan hátt. En um leið eru þeir dæmdir úr leik fyrir að koma með tillögu að svari, því þeir vanmeta staðreyndirnar og eru ekki að beita hliðarhugsun.

En er hægt að æfa sig að hugsa á hlið? 
Já, algjörlega. Það er t.d. hægt með því að æfa sig að leysa gátur. Alla þriðjudaga er ég með gátur á Facebook síðunni minni, sem er upplagt að spreyta sig á.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

,

by

Tags: