fbpx

Er stærðfræði eins og uppskrift?

Gleðilegt nýtt ár!

Í sumum störfum þarf fólk að fylgja ákveðinni uppskrift. Fara nákvæmlega eftir fyrirmælum en þurfa svo sem ekki að hafa mikla færni í því sem þeir eru að gera.

Önnur störf, oft mun skemmtilegri störf, krefjast þess að við skiljum uppskriftina.

Ef við skiljum uppskriftina, þá getum við breytt uppskriftinni. Í þeim tilfellum getum við gert uppskriftina enn betri með því að beita útsjónarsemi og þrautseigju.

Þetta er lauslega þýtt eftir Seth Godin markaðsgúrú.

Stærðfræði uppksrift

Þegar ég las þetta þá hugsaði ég strax um stærðfræði.

Þegar nemendur læra nýtt efni í stærðfræði, þá byrjar það yfirleitt á einföldu sýnidæmi. Sumir nemendur skilja ekki sýnidæmið en með það við hendina geta þeir leyst sambærileg dæmi. Oftast þarf lítið að hugsa og nemendur geta, án mikillar fyrirhafnar, reiknað næstu dæmi ef þau eru mjög svipuð.

En ef við ætlum virkilega að læra stærðfræði þá verðum við að leggja áherslu á að skilja hvað við erum að gera. Ég get líka lofað því að stærðfræði er svo miklu skemmtilegri þegar við skiljum hvað við erum að gera. Stærðfræði er ekki páfagauksnám, en getur oft litið þannig út þegar það er ekki nægur skilningur fyrir hendi.

Það sem gerist líka þegar við skiljum stærðfræði er að oft sjáum við aðrar leiðir til að leysa verkefnin heldur en bókin leggur til eða kennarinn er að kenna.

En hvernig er hægt að breyta því hvernig nemendur læra nýtt efni, þannig að það verði ekki bara einhver utanbókar lærdómur?

Það er hægt með því að breyta viðhorfi nemenda til sýnidæma. Sýnidæmi eiga ekki að vera til að geta hermt nánast alveg eftir þeim. Það þarf að líta á sýnidæmi sem tækifæri til að skilja efnið. Ein góð leið er að byrja ekki strax á að afrita sýnidæmið og byrja að reikna, heldur leggja áherslu á að skilja sýnidæmið. Hérna er góð leið (samt ekki uppskrift!).

Aðferð til að læra að skilja sýnidæmi:

  1. Farðu vel yfir sýnidæmið þar til þú telur þig skilja það nokkuð vel.
  2. Lokaðu síðan bókinni, taktu autt blað og farðu yfir sýnidæmið án þess að kíkja í bókina.
    – Talaðu eins mikið upphátt og þú mögulega getur (það hjálpar heilanum við að skilja efnið).
    – Ímyndaðu þér að þú sért að kenna öðrum þetta efni.
    – Ef þú nærð ekki að fara í gegnum sýnidæmið með þessum hætti farðu þá aftur í 1.

Ef þú nærð ekki að skilja sýnidæmið nægjanlega vel þrátt fyrir að hafa farið í fyrsta liðinn nokkrum sinnum, skrifaðu þá hjá þér allar spurningar sem þér dettur í hug og spurðu stærðfræðikennarann í næsta tíma. Stærðfræði er rannsóknarvinna!

Hefur þú það á tilfinningunni að unglingurinn þinn skilji yfirleitt efnið í stærðfræði mjög vel? Það væri gaman að heyra frá þér svo hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti eða senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: