Ég legg mikið upp úr skipulagi og mér finnst reyndar vandræðalega gaman að því að skipuleggja mig en ég mætti alveg vera duglegri að fylgja eftir mínu eigin skipulagi.
Ég er með nokkrar háskólagráður og fyrir utan að vera menntaður stærðfræðikennari þá er ég líka tölvunarfræðingur. Það var einmitt í tölvunarfræðináminu mínu sem ég lærði eina tegund af tímastjórnunaraðferð.
Það koma tímabil þar sem mér finnst ég vera mjög upptekin alla daga en er samt ekki að afkasta miklu. Þegar þau tímabil koma, þá fer ég í þessa tímastjórnunaraðferð.
Aðferðin gengur ekki út á að skrifa niður hvað ég ætla að gera heldur skrifa niður hvað ég er að gera!
Þegar ég prófaði þessa aðferð fyrst, þá var verkefnið í tölvunarfræðinni þannig að við áttum að vinna ákveðið hugbúnaðarverkefni og verkefni samhliða því var að skrifa niður hvernig við vörðum tímanum okkar.
Ég fyllti mitt blað samviskusamlega út, skrifaði niður allar truflanir (þetta var 1998, þegar það var mun minna um áreiti en er í dag). Þegar ég fékk verkefnið til baka þá var kennarinn minn virkilega áhyggjufullur og sagði að ég þyrfti nú að gera eitthvað við hundinn minn.
Ég átti nefnilega gamlan hund, hana Perlu mína, sem þurfti að fara ansi oft út að pissa. Ég var því alltaf að standa upp og hleypa henni út í garð og svo aftur inn.
Auðvitað vissi ég alveg af þessari truflun, en ég gerði mér þarna grein fyrir því að ef ég ætlaði að ná góðri einbeitingu og ná að afkasta mikilli vinnu þá þyrfti ég líklega að skoða hvað ég gæti gert svo Perla mín myndi ekki trufla mig svona mikið.
Ástæðan fyrir því að ég nefni þessa aðferð núna, er að það var einmitt í síðustu viku sem ég upplifði að ég væri að vinna gríðarlega mikið en samt einhvern vegin ekki ná að afkasta miklu.
Ég skrifaði því hjá mér nokkra daga í röð í hvað dagurinn minn væri að fara og helsta truflunin og tímaþjófurinn var einkum tvennt: ég var að detta inn í allskonar áhugavert efni á netinu og svo var ég allt of mikið í að skutla og útrétta á bílnum.
Ég áttaði mig á að ég þyrfti að vera mjög öguð að falla ekki fyrir neinu spennandi til að lesa eða horfa á meðan ég ætlaði að vera að vinna. Vinna fyrst – horfa svo!
Varðandi skutlið þá ákvað ég að skipuleggja allt svoleiðis daginn fyrir og reyna þá að hagræða því þannig að ég næði að samnýta ferðir.
Síðustu dagar hjá mér hafa því gengið furðuvel og ég er virkilega ánægð með hvað ég næ að komast yfir mikið efni.
Þegar unglingurinn þinn segist ekki hafa tíma til að læra eða tíma til að taka til í herberginu fyrir jólin, þá getur þú beðið hann að skrá hjá sér (eða þú skráð hjá þér) í hvað tíminn fer þegar hann er vakandi. Þegar sá listi er síðan skoðaður kemur örugglega í ljós að það er alveg nægur tími til að taka til 🙂 …eða læra.
Gleðilega hátíð,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is