fbpx

Til hvers eru próf?

Til hvers eru próf

Til hvers eru próf? Mín persónulega skoðun er sú að próf eiga ekki að hafa það markmið að stimpla nemendur, en það er nú samt oft þannig.

Dæmi 1:
Nemandi fer í próf, hann svarar 70% af prófinu rétt og fær C. Kennarinn fer ekki yfir prófið með nemandanum heldur sýnir honum bara einkunnina og tekur prófið svo til baka. Svo er farið áfram í næsta efni.

Þegar próf eru lögð fram með þessum hætti, þá skil ég ekki alveg hvers vegna nemandinn var látinn taka próf. Þetta er dæmi um próf þar sem verið er að “stimpla” nemendur. Þú fékkst C og það er endanlegt.

En próf geta verið frábær og lærdómsrík, skoðum annað dæmi.

Dæmi 2: 
Nemandi fer í próf, prófið metur að miðað við hans færni í þessu prófi þá sé hann staddur í C. Kennarinn lætur nemandann hafa prófið aftur og biður nemandann að skoða prófið vel og sjá hvað hann gerði rangt. Nemandinn fær tækifæri á að bæta sig með því að reyna við dæmin sem hann hafði ekki góð tök á.

a. Nemandinn rannsakar prófið, skoðar kennslubókina og sér hvað hann gerði rangt og lærði heilmikið á því að taka þetta próf.
b. Eða nemandinn er ekki að ná að átta sig á því hvað hann gerði rangt og fær aðstoð frá kennaranum til að skilja efnið og svo tækifæri á að leysa samskonar dæmi til að vera viss um að hann hafi náð góðum tökum á efninu.

Einkunn nemandans er breytt í B þar sem það er staðfest að nemandinn hefur náð góðum tökum á þeirri færni sem verið var að prófa.

Þessi nemandi græddi mjög mikið á að taka þetta próf. Hann fékk að vita hvar hann stæði og fékk tækifæri á að bæta sig og á endanum var með góð tök á efninu og fékk leiðréttingu á einkunn – enda hafði hann náð færninni sem verið var að meta.

Síðustu ár hef ég verið að aðstoða nemendur í 10. bekk með heimanám og undirbúning fyrir (og eftir) próf og það er alltaf algengara að nemendur fái tækifæri á að bæta sig og taka prófin aftur – sem mér finnst æðislegt.

Þegar nemendur eru stimplaðir með einkunnum er það dæmi um hamlandi hugarfar (e. fixed mindset)Þú ert C.
En þegar próf eru lögð fyrir sem tækifæri fyrir nemendur að sjá hvar þeir standa og hafa tækifæri til að bæta sig er dæmi um vaxandi hugarfar (e. growth mindset). Þú ert núna C og þarft einungis að ná tökum á einu atriði til að fara í B.

Í þeim tilvikum sem nemendur eru í lokaprófum og fá þá ekki að sjá prófið í næsta tíma, þá hef ég hvatt nemendur til að fá alltaf að skoða prófin. Til hvers að taka próf, ef þú veist ekki hvað þú gerðir rangt og hvað þú getur lært af því að hafa tekið þetta próf?

Hvernig er þessu háttað í skólanum hjá þínum unglingi?
Fær hann tækifæri á að bæta sig þegar hann fær prófið til baka? Hefur hann tækifæri á að fá nýja einkunn þegar hann hefur sýnt fram á að hafa náð góðum tökum á þeirri færni sem hann hafði ekki þegar prófið var upphaflega tekið?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

,

by

Tags: