fbpx

Á dæmið að vera létt eða erfitt?

Ég var einu sinni að kenna nemanda sem var frekar fljótur að fatta og varð mjög glaður þegar hann fékk rétt svar, en um leið og það kom eitt vitlaust svar þá nennti hann ekki meir og fór í símann sinn…

Hann hafði ekkert úthald og hafði aldrei lært eða vanið sig á að rannsaka dæmi og gefa sér meiri tíma í að leysa dæmi. Það hvarflaði ekki einu sinni að honum að reikna dæmið aftur.

Ég sagði við hann að hann þyrfti að þjálfa þrautseigjuna. Hann yrði æfa sig að reyna meira við dæmin og þegar hann fengi rangt svar að þá þyrfti hann að æfa sig í að gefast ekki strax upp.

Í kjölfarið lét ég hann hafa flókið dæmi og sagði að þetta væri áskorun og æfing fyrir hann að gefast ekki upp. Hann þyrfti að reyna við dæmið í að minnsta kosti 5 mínútur sjálfur áður en ég kæmi til hans til að ræða málin og sjá hver væru næstu skref.


​​
​Ég verð að segja að það var ótrúlegt að sjá drenginn. Á örfáum mínútum sá ég hvernig hann breyttist í þennan svakalega stærðfræðing! Hann var greinilega harðákveðinn að gera allt sem hann gæti til að leysa dæmið því núna var markmiðið að leysa verkefni sem var mikil áskorun og eitthvað sem ég gerði ekki ráð fyrir að hann gæti auðveldlega leyst.

Þegar hann náði loksins að leysa dæmið, eftir nokkrar tilraunir, þá fékk hann annað flókið dæmi og annað… og ég sá hvað honum fannst þessi flóknu dæmi miklu skemmtilegri en “léttu” dæmin. Hann tók ekki símann aftur upp í þessum tíma.

Létt eða erfitt

Hvað var eiginlega í gangi?

Þetta er bara nákvæmlega lýsing á því hvað mörgum nemendum finnst um stærðfræði. Margir nemendur misskilja hvað stærðfræði gengur út á. Þeir halda að þeir eigi að vera fljótir að fatta og fá rétt svör, annars eru þeir ekki góðir í stærðfræði.

Ef nemendur vita að markmiðið er ekki að vera fljótur og þeir eru að æfa sig í útsjónarsemi og vinnusemi, þá breyta þeir því hvernig þeir nálgast verkefnin. En auðvitað er ekki nóg að segja þetta bara, heldur verðum við stundum að gefa nemendum krefjandi verkefni til að æfa sig í að gefast ekki upp.

Hvernig getum við foreldrar nýtt okkur þetta?
Ég veit að það er erfitt fyrir foreldra að skipta sér að lærdómi unglingsins, en við getum samt reynt 🙂
Við getum t.d. sagt unglingnum okkar að stærðfræði gangi út á að rannsaka og sýna þrautseigju. Það sé algjört lágmark að reyna við dæmi í 5-10 mínútur áður en hann gefst upp. Því það sem gerist líka er, að þegar nemendur hafa varið miklum tíma í að reyna að leysa tiltekið dæmi (þrátt fyrir að hafa ekki náð að leysa það) þá skilja þeir betur útskýringuna þegar þeir fá hana frá kennara eða einhverjum öðrum.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

,

by

Tags: