fbpx

Á að vera heimavinna í grunnskólum?

Síðustu daga er ég búin að vera að tala mikið við foreldra á unglingastigi og það kom mér á óvart hvað það er mikill munur á milli skóla þegar það kemur að heimavinnu.

Í sumum skólum er bara alls engin heimavinna í 8., 9. og 10. bekk og í öðrum skólum er mjög mikil heimavinna á öllum þessum skólastigum. Þessi mismunur á milli skóla átti einnig við um skóla sem eru í sama bæjarfélagi.

Eiga nemendur í grunnskóla að hafa heimavinnu?

Ég hef oft velt fyrir mér heimavinnu í grunnskólum. Hér áður fyrr, þá var ég mjög hörð á því að nemendur þyrftu að hafa heimavinnu til venja sig á að læra heima. En í dag skil ég báðar hliðar og finnst hvorug leiðin rétt, því allt fer þetta eftir nemendum.

Sú kona sem ég lít upp til þegar kemur að stærðfræðikennslu er Jo Boaler. Hún er prófessor í stærðfræði við Stanford háskólann í Bandaríkjunum og hefur skrifað mikið um viðhorf og stærðfræði (e. mathematical mindset). Hún er á móti heimavinnu og vill að nemendur eigi frí eftir að skóladegi lýkur og að foreldrar geti notið samvistar með börnum sínum en þurfi ekki stöðugt að vera að “rexa” í þeim að fara að læra.

Margir nemendur geta alls ekki einbeitt eða unnið neitt í skólanum og þurfa að læra nánast allt sem gert var í skólanum þegar þeir koma heim. Það er mjög erfitt fyrir þessa nemendur ef það bætist síðan heimavinna ofan á þá miklu vinnu.

Svo hef ég heyrt frá foreldrum með nemendur á einhverfurófi og það er oft slagur sem foreldrar eru ekki tilbúnir að taka ofan á allt, enda þarf maður að velja sínar baráttur. Ég skil líka það sjónarmið.

Eiga allir skólar að vera eins?
Það væri kannski eðlilegt að hver skóli hefði sína útfærslu og hún væri opinber og foreldrar gætu þá valið skóla sem hentar betur sínu barni. En á Íslandi erum við með hverfisskóla og því fara nemendur í sinn hverfisskóla, þó svo að kennslan í þeim skóla henti alls ekki sínu barni.

Að mínu mati er hægt að rökstyðja báðar hliðar, því það eru kostir og gallar við báðar leiðir.

Kostir við að hafa heimavinnu
1. Þá vita foreldrar hvað unglingurinn þeirra er að læra í skólanum og geta betur gert sér grein fyrir hvernig hann stendur námslega séð.
2. Þetta er frábær undirbúningur fyrir nám eftir grunnskólann.

Gallar við að hafa heimavinnu
1. Nemendur eiga ekkert frí. Þeir sitja kannski í skólanum frá 8-15 og eiga síðan að bæta við auka vinnu eftir það.
2. Sumir nemendur ná ekki að einbeita sér og vinna í skólanum og þurfa því að gera það þegar heim er komið. Ef það bætist við heimavinna ofan á þá vinnu þá eru þessir nemendur að læra alla daga langt fram á kvöld.
3. Sumir nemendur fá enga aðstoð heima við lærdóminn og því erfitt fyrir þá að hafa heimavinnu.

Ég hef fundið margar kannanir sem kanna viðhorf foreldra, nemenda og kennara til heimanáms, tegund heimanáms og magn heimanáms. En ég velti því fyrir mér hvort að það hafi verið gerð einhver könnun á því hvaða áhrif heimanám hefur. Skildi nemendum sem hafa vanist á heimanám eiga auðveldara með að takast á við námið í framhaldsskóla? Eru skólar með heimanám að koma betur út í samræmdum prófum og PISA könnunum?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: