fbpx

Versti ávaninn þegar kemur að námi

Versti ávaninn þegar kemur að námi er frestun.
Nemendur sem ná ekki tökum á þessum ávana, eiga mjög erfitt með að hámarka getu sína til að læra.

Það er eðlilegt að fresta og það verður aldrei hægt að útrýma þörfinni sem kemur upp að fresta. En það er hægt að læra aðferðir til að takast á við þörfina að fresta og þar af leiðandi fækka og halda í lágmarki þeim skiptum sem við frestum.

Auðvitað er allt í lagi að fresta mörgu, en ef það er eitthvað sem þú þarft að gera og það skiptir þig miklu máli en þú færð þig bara ekki til að byrja á því – þá er það eitthvað sem er nauðsynlegt að ná tökum á.

Versti ávaninn
Frestun er versti ávaninn

Hérna eru nokkrir punktar varðandi frestun sem gætu hjálpað þínum unglingi ef hann á það til að fresta heimalærdómi:

Tilhugsunin er ástæða frestunar
Það sem mér finnst svo áhugavert þegar kemur að frestun, er að það er bara tilhugsunin við að gera eitthvað ákveðið (t.d. læra) sem fær okkur til að fresta, en þegar við byrjum að framkvæma þá fer strax þessi tilfinning.

Þetta hefur t.d. verið rannsakað með því að skoða heila í fMRI skanna. Þegar heilar einstaklinga sem voru að hugsa um frestun var skoðaðir, þá sást að svæðið í heilanum sem upplifði vanlíðan lýstist upp. En um leið og þeir fóru í að framkvæma það sem þeir voru að fresta, þá slokknaði strax á þessu svæði.

Stundum er þetta því bara spurning um að drífa sig að byrja að læra, án þess að hugsa of mikið um það, því það er bara tilhugsunin sem er að valda því að við frestum.

Minnka þröskuldinn
Oft mikla nemendur fyrir sér hvað þeir þurfi að læra (t.d. reikna 20 dæmi) og þess vegna fresta þeir. En ef unglingurinn hugsar bara “ég ætla að setjast niður í 5 mínútur byrja aðeins að læra” þá eru meiri líkur á að hann byrji strax að læra og þegar hann er byrjaður þá er frestunin farin og meiri líkur á að hann haldi áfram að læra.

Ekki skamma fyrir frestun
Annað sem er gott að hafa í huga þegar kemur að frestun, er að við megum ekki vera of ströng við okkur. Ef unglingurinn þinn skammar sjálfan sig fyrir að fresta þá sýna rannsóknir að það verður það til þess að hann frestar meira. Sem sagt, ekki skamma sig fyrir að fresta!

Vinna fyrst leika svo
Þeir sem eru vanir að fresta lærdómi hugsa margir að þeir ætli að horfa á smá fyrst og svo fara að læra. Það verður að snúa þessu við og byrja á því að læra og passa að verðlauna sig ekki fyrr en eftir á. Það er ekkert hvetjandi að fá strax verðlaun sem maður á eftir að vinna fyrir.

Þetta tekur enga stund
Blekkingin að ætla að bara að gera eitthvað fyrst sem tekur enga stund er algeng. T.d. ég ætla “bara aðeins að tékka” á Snaphcat eða TikTok er ekki til. Við vitum alveg að þetta er mikill tímaþjófur. Þess vegna verður unglingurinn þinn að hugsa strax, að kíkja aðeins tekur klukkutíma og verður að bíða.

Átt þú ungling sem á það mikið til að fresta þegar kemur að heimalærdómi?
Ef svo er, veistu hvaða ástæðu hann notar fyrir því að fresta? Þú mátt endilega deila því með mér með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: