fbpx

Hefur unglingurinn þinn prófað tómatinn?

Rannsóknir sýna að við getum ekki innbyrt mikið af upplýsingum í einu. Það hentar heilanum okkar voðalega vel að vinna í lotum og taka stuttar pásur inn á milli.

Þetta á ekki við allt, t.d. geta flestir lesið skáldsögur eða horft á spennandi bíómynd, haldið fullri athygli allan tímann og munað það sem skiptir máli. En þegar við erum að lesa sögubók eða efni í líffræði þar sem við erum að innbyrða mikið af upplýsingum þar sem nánast hver einasta lína skiptir máli – þá er mjög gott að vinna í lotum. Þetta á auðvitað líka við um stærðfræði, sérstaklega ef við erum að læra nýtt efni.

Ein þekkt aðferð til að vinna í lotum er Tómaturinn eða Pomodoro – sú aðferð byggir á því að vinna með fulla einbeitingu í 25 mínútur og hafa 5 mínútna pásu á milli. Eftir nokkrar vinnulotur eykst síðan pásan.

Tómaturinn er til fyrir borðtölvur og app í síma, en einnig er hægt að nota eggjaklukku úr eldhúsinu. Það sem er kannski erfiðast við þessa aðferð eru pásurnar. Það þarf nefnilega að passa að þær verði ekki of langar og að við séum virkilega að nýta þær heilanum í hag.

Góð 5 mínútna pása væri að standa upp og fá sér vatnsglas. Heilinn elskar vatn og þegar við stöndum upp og löbbum þá getur heilinn farið að vinna úr þeim upplýsingum sem við vorum að afla okkur.

Slæm 5 mínútna pása er að fara á Facebook eða skoða tölvupóst. Við vitum alveg hvernig það fer… allt í einu eru liðnar 30 mínútur og heilinn fékk ekki einu sinni tækifæri á að hvíla sig.

Það er frábært að byrja að temja sér góðar námsvenjur á unglingastigi og gott að unglingar geri sér grein fyrir að þeir eiga ekki að hafa úthald að sitja við endalaust. En það sem þarf að passa sérstaklega vel er að taka góðar heila-pásur.

Er unglingurinn þinn byrjaður að tileinka sér að vinna í lotum? Ef svo er, hvað eru loturnar langar?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

,

by

Tags: