fbpx

Er betra að glósa á blað eða nota tölvu?

Hefur þú þurft að glósa nýlega?

Þegar við erum búin að þjálfa upp góða færni í að skrifa á lyklaborð á tölvu, þá erum við miklu fljótari að skrifa á lyklaborðið heldur en að skrifa á blað. Við verðum meira að segja svo fljót að við getum nánast skrifað allt inn sem kennari eða fyrirlesari segir. Eitthvað sem við gætum ekki ef við værum að skrifa orðrétt á blað.

En þegar kemur að því að skrifa glósur á fyrirlestri, í kennslustund eða á námskeiði – hvort skyldi vera betra að skrifa glósurnar á blað eða skrifa þær í tölvu?

Eins og ég sagði rétt áðan, þá getur sá sem hefur þjálfað góða færni á lyklaborðið verið svo fljótur að hann getur nánast skrifað orðrétt það sem kennarinn eða fyrirlesarinn er að segja. En sá sem skrifar niður glósur getur einungis náð niður hluta efnisins á blað.

Rannsóknir sýna að sá sem glósar í tölvu gengur ekki eins vel á prófi úr efninu og sá sem tekur niður glósur á pappír og allra versta leið til að taka niður glósur á fyrirlestri er að slá inn orðrétt það sem er sagt!

Hvernig má það vera?

Hluti ástæðunnar er sú að það er miklu mikilvægara að hlusta vel þegar þú ert að skrifa glósur á pappír, þú getur ekki skrifað allt sem kennarinn segir og þarft að hlusta eftir aðalatriðunum. Nemendur sem skrifuðu glósur á tölvu skrifuðu bara allt sem kennarinn var að segja, en voru ekki að hlusta eftir aðalatriðunum eða tengja saman efnið sem verið var að fjalla um.

Þessum hópum gekk svipað á prófinu þegar verið var að spyrja út í einfaldar staðreyndir eins og dagsetningu. En þegar spurt var út í atriði sem fólu sér að átta sig á aðalatriðum eða samanburði á efni eða atburðum sem komu fram, þá gekk þeim sem slógu inn í tölvu miklu verr.

Þegar við glósum á blaði, þá þurfum við að hafa miklu meira fyrir því. Við þurfum að hlusta vel, megum ekkert missa úr og þurfum að átta okkur á samhengi og aðalatriðum. Sem sagt, þessi aðferð er í raun erfiðari fyrir þann sem er að glósa – en ávinningurinn er miklu meiri.

Okkur finnst oft að ef eitthvað er erfitt eða gengur hægt, að þá séum við ekki að læra eins mikið – og við freistumst oft til að fara í aðferðir sem eru léttari fyrir okkur (eins og að glósa á tölvu) en skila okkur ekki eins góðum árangri.

Þetta kemur allt heim og saman við það sem ég talaði um í einum sunnudagspóstinum mínum frá því í júlí. Besta leiðin til að læra nýtt efni úr kennslubók, er að loka bókinni og endursegja efnið (https://staerdfraedi.is/thu-laerir-ekkert-a-thessu/). Það er mjög erfitt, sérstaklega til að byrja með, en það krefst þess að við veljum út aðalatriðin og tökum út það sem skiptir mestu máli.

Það er frábært kenna unglingum strax hvernig á að glósa í fyrirlestri. Það mikilvægasta er að gera þeim grein fyrir að það er betra að skrifa á blað heldur en að skrifa á lyklaborð. En síðan eru til ákveðnar aðferðir við að glósa á blað sem eru einstaklega skilvirkar og góðar fyrir heilann… sem ég fer örugglega í síðar.

Glósar unglingurinn þinn einhvern tímann í stærðfræði? Ef svo er, hvernig eru þær glósur?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: