fbpx

Hvort er léttara að gera eitthvað 99% eða 100%?

Fyrir stuttu síðan skrifaði ég hvernig erfiðari próf geta stundum verið léttari.

Í dag ætla ég að tala um hvort sé léttara að gera eitthvað 99% eða 100%?
Án þess að pæla mikið í því, þá gæti maður haldið að það væri auðveldara að gera eitthvað 99% – en það er þó ekki þannig í öllum tilfellum.

Þegar við erum að semja við okkur sjálf um eitthvað sem við viljum ná tökum á eða skuldbinda okkur til að gera – þá er betra að gera það 100%, heldur en 99%.

Síðustu átta ár var búin að reyna að gera mitt besta að senda reglulega póst á póstlistann minn. En það gekk ekki betur en svo að stundum sendi ég bara póst einu sinni í mánuði og svo liðu jafnvel nokkrir mánuðir á milli.

En svo í upphafi þessa árs tók ég ákvörðun um að ég ætlaði að senda vikulega póst. Ég ætlaði ekki að reyna mitt besta eða reyna að senda næstum alltaf vikulega. Ég ætlaði að senda alla sunnudaga – 100% skuldbinding – engar samningaviðræður við sjálfa mig.

Það sem kemur mér mest á óvart er hversu miklu auðveldara það er og hversu mikill tímasparnaður það er að vera ekki í þessum samningaviðræðum við sjálfa mig. Síðan í janúar hef ég sent frá mér vikulega fróðleiksmola á áhugasama foreldra á póstlistanum mínum.

Þetta er líka hægt að yfirfæra yfir á námið. Það er auðveldara fyrir þinn ungling að skipuleggja æfingar og heimalærdóm 100% heldur en 99%. Þegar það er gert 99% þá er alltaf hægt að finna afsakanir og ástæður fyrir því hvers vegna skipulagið gangi ekki upp – en 100% skuldbinding er staðfesting á því að unglingurinn ætlar ekki að nota afsakanir (enda ekkert mál að finna þær ef maður vill).

Ég sé þetta svo greinilega á námskeiðunum hjá mér. Þeir nemendur sem taka ákvörðun um að ætla (ekki bara langa) að vinna daglega virka daga, ná því markmiði. Þeir nemendur sem ætla að gera sitt besta og vinna þegar þeir hafa tíma lenda yfirleitt í samningaviðræðum við sjálfan sig…

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/

PS. Viltu skrá þig á póstlista stærðfræði.is og fá vikulegan fróðleik sem nýtist þínum unglingi?
https://staerdfraedi.is/skraning-a-postlista-staerdfraedi/

PSS. Áttu ungling í 10. bekk?
Ef svo er, ekki missa af þessum mikilvægu upplýsingum sem varða umsókn í framhaldsskólana
https://staerdfraedi.is/attu-ungling-i-10-bekk/


Posted

in

by

Tags: