fbpx

Geta lesblindir lært að lesa?

Auðvitað geta lesblindir lært að lesa – við vitum það öll.
En geta nemendur með stærðfræðiblindu lært stærðfræði og orðið mjög góðir í stærðfræði? Svarið er já!

Auðvitað geta lesblindir lært að lesa OG þeir sem eru með stærðfræðiblindu geta orðið góðir í stærðfræði.

Ég kenni stærðfræði á framhaldsskólastigi í “raunveruleikanum”. Fyrir um fjórum árum kom til mín nemandi sem hafði dreymt um að verða dýralæknir. En stærðfræðikennarinn hennar í grunnskóla hafði sagt við hana að hún gæti ekki orðið dýralæknir af því að hún væri með stærðfræðiblindu og gæti ekki lært stærðfræði. 

Ég sagði henni að hún gæti að sjálfsögðu lært stærðfræði, en hún þyrfti að vera tilbúin að leggja meira á sig en aðrir. Hún var sko tilbúin að leggja mikið á sig – og trúði allt í einu að hún gæti lært stærðfræði, af því að ég sagði henni að hún gæti alveg lært stærðfræði!

Í stuttu máli þá kláraði þessi nemandi einn stærðfræðiáfanga á einni önn með glæsibrag. Það var ekki auðvelt en hún lagði mikið á sig og sýndi mikla vinnusemi og þrautseigju – af því að núna vissi hún að hún gæti alveg lært stærðfræði.

Í lok annarinnar afhenti hún mér langt bréf, þar sem hún sagði meðal annars: 

“Þú ert eini kennarinn sem ég hef haft sem hefur trúað á mig og getu mína til þess að ná árangri.”

Nemendur eru alltof oft að fá skilaboð frá umhverfinu að þeir geti ekki eitthvað. Ég veit ekki alveg hvað þarf til þess að það breytist, en það er alveg ljóst að allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið mjög góðir í stærðfræði. 

Síðasta sunnudag sagði ég þér frá Nicholas Letchford sem var með lága greindarvísitölu og lesblindur. Þegar hann var 7 ára fékk mamma hans þau skilaboð frá skólanum að hann væri versta tilvik sem þeir hefðu séð í 20 ár. Árið 2018 útskrifaðist Nicholas með doktorspróf í Hagnýtri stærðfræði fá Oxford Háskólanum í Bretlandi. 

En í dag ætla ég að segja þér frá henni Dylan Lynn, sem er með stærðfræðiblindu og útskrifaðist með B.Sc. gráðu í Tölfræði frá Berkeley háskólanum í Kalifornínu. 

Dylan fékk þau skilaboð að hún gæti ekki lært stærðfræði af því að hún væri með stærðfræðiblindu. Hún segir að það sé jafn fáránlegt og að segja við einhvern sem sé lesblindur að hann geti aldrei lært að lesa. 

Dylan náði að breyta öllum stærðfræðiverkefnum þannig að hún skildi þau. T.d. ef hún fékk dæmi sem var “5+3=” þá breytti hún dæminu með því að skrifa “fimm plús þrír samasem” og þá gat hún reiknað dæmið. Það tók hana miklu lengri tíma en aðra að reikna dæmi, en stærðfræði snýst ekki um það að vera snöggur að reikna (þrátt fyrir að flestir skólar séu enn að miða við hraða). 

Ef þú vilt lesa meira um Dylan og sjá dæmi hvernig hún breytti dæmum til að skilja þau betur, þá getur þú farið á þessa vefslóð: https://www.dyscalculia.org/stories/mentors/dylan-lynn-statistician

Allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið mjög góðir í stærðfræði – á öllum skólastigum. Ég er ekki að segja að það sé jafn auðvelt fyrir alla, en ef viljinn er fyrir hendi þá er það að sjálfsögðu hægt.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: