fbpx

Þú lærir ekkert á þessu

Ímyndaðu þér að unglingurinn þinn sé að undirbúa sig fyrir próf í sögu.

Af þessum fjórum aðferðum sem ég lista hérna fyrir neðan, hvaða aðferð heldur þú að sé skilvirkust eða virki best til að undirbúa sig fyrir prófið?

  1. Lesa bókina nokkrum sinnum
  2. Nota yfirstrikunarpenna og strika yfir mikilvæg atriði
  3. Endursegja, t.d. eftir hvern kafla rifja upp hvaða atriði komu fram í kaflanum
  4. Búa til hugtakakort (e. concept map)

Svarið sem rannsóknir sýna að sé skilvirkast kemur hérna rétt strax.

En hvaða aðferð hér að ofan myndir þú hvetja unglinginn þinn til að nota?

Við sem foreldrar verðum að velta þessu fyrir okkur, því að börnin okkar og unglingar læra ekki í skólum hvernig á að læra.

Þegar ég var í framhaldsskóla þá var yfirstrikunarpenninn besti vinur minn. Mér fannst ég ekki læra neitt eða skilja neitt nema strika yfir. Þetta var mín upplifun. 

En rannsóknir sýna að þetta er alls ekki góð aðferð. Af þessum fjórum aðferðum sem ég nefndi hérna fyrir ofan þá sýna rannsóknir að endursögn er sú allra skilvirkasta og besta aðferðin.

T.d. ef þú lest einn kafla í sögu, þá er best að loka bókinni og taka autt blað og endursegja hvað kom fram í kaflanum. Þetta getur verið mjög erfitt til að byrja með, en eins og með allt, þá verður alltaf auðveldara og auðveldara að nýta sér þessa aðferð. 

En hvaða aðferð er skilvirkust þegar kemur að stærðfræði? 
Mörgum finnst það eflaust hljóma undarlega, en það er nákvæmlega sama aðferð! Sem sagt að endursegja. 

Svo ég komi með dæmi úr stærðfræði. Segjum sem svo að unglingurinn þinn sé að læra nýja aðferð í stærðfræði. Hann fer yfir sýnidæmið í bókinni. Ef unglingurinn þinn skoðar sýnidæmið nokkrum sinnum, þá mun hann líklega upplifa að hann skilji það nokkurn veginn. 

En ef unglingurinn þinn nýtir sér endursagnar-aðferðina, þá þarf hann að fara vel yfir sýnidæmið, síðan loka bókinni og taka autt blað og leysa aftur sama dæmi með því að endursegja það sem kom fram í sýnidæminu. 

En nú skal ég vera svakalega hreinskilin. Ég les mikið af bókum (ekki skáldsögum) og er enn með yfirstrikunarpennana mína. Mér finnst alveg ótrúlega skemmtilegt að strika yfir texta og lesa bækur með þeirri aðferð. En það sem ég hef líka vanið mig á síðustu ár er að taka saman og skrifa stuttan texta um það efni sem ég ætla að nýta mér eða sem mér finnst ég hafa lært af því að lesa efnið. Það má því segja að ég sé að nota endursagnaraðferðina (þótt ég noti yfirstrikunarpennanna líka).

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: