Ég hef verið að fylgjast aðeins með Ólympíuleikunum. Horfi alltaf á samantektina í Ólympíukvöldinu hjá RÚV og horfi svo á einstaka keppnir þegar tími vinnst til.
Það sem ég hef helst horft á eru hjólabrettin (bæði street og park) og mér finnst erfitt að hlusta á þá sem eru að lýsa þeirri grein.
Þeir tala nefnilega oft um að hinn eða þessi sé undrabarn, eins og það búi yfir einstökum hæfileikum sem þeir hafi fæðst með og það sé helsta ástæða þess að þau séu mætt til að keppa á Ólympíuleikunum.
Þetta er jafn úrelt og þegar talað er um að einhver sé fæddur stærðfræðisnillingur.
Rannsóknir síðustu ára hafa afsannað þetta. Það er staðreynd að einstaklingar fæðast með mismunandi forskot í námi eða mismunandi hæfileika í ákveðinni íþrótt – svo dæmi séu tekin.
En það verður enginn “snillingur” í stærðfræði eða Ólympíufari nema að leggja mikið á sig og það er eitthvað sem allir geta gert, sama hvaða hæfileika þeir fæddust með.
Hér áður fyrr þá héldu flestir að þeir sem væru fljótir að fatta í stærðfræði væru fæddir snillingar í stærðfræði, en það er alls ekki raunin. Margir af okkar mestu stærðfræðisnillingum upplifðu margir að þeir væru heimskir í skóla, því þeir voru lengi að fatta og ná tökum á efninu sem verið var að kenna. En það var einungis vegna þess að þeir þurftu aðrar kennsluaðferðir og aðrar nálganir til að ná tökum á efninu. En þeir gáfust ekki upp, fundu sínar eigin leiðir sem gerðu þá að snillingum.
Þegar ég heyri orðið snillingur í einhverju, þá hugsa ég um einstakling sem hefur mikinn áhuga á því sem hann er að gera, þorir að gera mistök og sýnir mikla þrautseigju og vinnusemi til að ná árangri.
Ertu með einhverjar sögur til að deila með mér? Þekkir þú einhvern snilling?
Ef þú hefur einhverjar spurningar – hikaðu ekki við að hafa samband með því að senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is eða Facebook skilaboð.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/