fbpx

1 klst. ekki sama og 1 klst.

Hvað skyldi ég ná að læra mikið á klukkutíma (eða vinna mikið á klukkutíma)? Svarið við þessari spurningu getur verið mjög ólíkt eftir því hvar ég er að læra, á hvaða tíma sólarhringsins ég er að læra, hversu þreytt ég er, hvernig einbeitingin mín er o.s.frv.

1 ekki sama og 1

Enska orðið “pseudo-work” er notað fyrir þá sem eru mjög uppteknir í vinnunni en afkasta litlu sem engu. Ég hef þýtt þetta orð sem gervi-vinnu og þegar kemur að námi sem gervi-nám.

Erlendir sérfræðingar staðhæfa að allt of margir nemendur stundi gervi-nám. Þeir líta út fyrir að vera alltaf að læra og mjög uppteknir af því hvað það sé mikið að læra, en þegar kemur að prófum eða verkefnaskilum þá uppskera þeir ekki miðað við þann tíma sem þeir lögðu í verkið.

Hvers vegna er það?

Cal Newport er prófessor sem ég held mikið upp á og hefur skrifað átta bækur sem fjalla á einn eða annan hátt um afköst, nám og einbeitingu. Hann hefur skrifað um þetta gervi-nám og muninn á þeim sem eru í alvöru að læra og þeim sem stunda gervi-nám. Munurinn á þeim er aðallega hvar þeir læra, hvenær þeir læra og hvernig þeir læra, en einbeiting spilar stóran þátt.

Sá nemandi sem þykist vera að læra, lærir á stað þar sem hann verður auðveldlega fyrir truflun t.d. truflun frá vinum, systkinum eða foreldrum og síðast en ekki síst, leyfir símanum að trufla sig. Hann lærir yfirleitt eftir kvöldmat þegar einbeitingin er minni og aðferð hans til að læra er reyndar eins og margir læra t.d. lesa texta yfir nokkrum sinnum eða reikna fullt af svipuðum dæmum. Sá hluti sem vegur hvað mest hjá þessum nemanda er einbeitingin, á þessum stað og tíma er einbeitingin kannski svona 3 (af 10).

Sá nemandi sem er virkilega að læra, lærir á stað sem enginn getur truflað (t.d. einn heima eða á bókasafni). Hann setur símann á hljóðlausa stillingu og hefur hann ekki í augnsýn. Hann nýtir tímann vel, lærir t.d. strax eftir skóla áður en hann fer á æfingu og lærir með því hugarfari að það sé ekki í boði að læra eftir kvöldmat því þá er einbeitingin minni. Hann lærir með því að lesa yfir texta eða fara yfir stærðfræðidæmi, lokar síðan bókinni og ímyndar sér að hann sé að kenna öðrum það sem hann var að fara yfir. Einbeitingin hjá þessum nemanda er 10 (af 10)

Cal Newport setti fram eftirfarandi jöfnu til að sýna hvað það skiptir miklu máli að ná að læra óáreittur og með fulla einbeitingu.
Jafnan hans er svona: Work = Time x Intensity

Segjum að til þess að klára eitthvað verkefni þá þurfi unglingurinn þinn að verja 30 “vinnueiningum”.
Þessi sem þykist vera að læra, lærir í 10 klukkutíma með einbeitingu 3:
30 vinnueiningar = 10 klst. x 3 einbeitingu

Sá sem er virkilega að læra er bara að læra í 3 klukkutíma en með einbeitingu 10 og nær að skila sömu niðurstöðu/afköstum:
30 vinnueiningar = 3 klst. x 10 einbeitingu

Þegar þetta er sett svona fram, þá spyr ég, hvers vegna eru ekki allir að læra með skilvirkari aðferð þar sem það sparar svo mikinn tíma?
Til hvers að verja 7 klukkutímum í eitthvað verkefni ef þú getur gert það á 3 klukkutímum?

Það krefst án efa miklu meiri aga að læra með þessum hætti, það er rosalega freistandi að hanga með vinum eftir skóla í stað þess að fara strax að læra. Það er líka rosa kósí að lesa efni yfir í róglegheitum með yfirstrikunarpenna og einbeitingu upp á 4-5, í stað þess að þurfa að loka sig af, taka frá allt áreiti og lesa efnið með svo mikilli einbeitingu að þú ímyndar þér að þú þurfir að kenna öðrum það sem þú ert að lesa (með bókina lokaða).

Flestir nemendur komast upp með ýmsar útfærslur af heimanámi í grunnskóla. Margir nemendur eru meir að segja aldrei með neitt heimanám nema kannski að klára það sem náðist ekki að klára í skólanum. En þegar kemur að námi í framhaldsskóla þá eykst álagið mikið og ágætt að vera búinn að temja sér skilvirka leið til að læra sem sparar mikinn tíma.

Á skalanum 0-10, hvaða einbeitingu heldur þú að þinn unglingur sé oftast með þegar hann er að læra heima?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

,

by

Tags: